Fara í efni

Fréttir - Sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar

Breytt aldurssamsetning íbúa á Austurlandi – hvað þýðir það fyrir framtíðina?

Það er ekki aðeins fjöldi íbúa sem hefur breyst og er ólíkur milli staða. Aldurssamsetning er einnig breytt. Breytingin er mismikil eftir aldurshópum en slíkar breytingar hafa langtímaáhrif þegar hugað er að þáttum eins og þjónustuþörf, velferð, stærð húsnæðis og vinnumarkaði.

Íbúum á aldrinum 20 til 29 ára hefur fjölgað um rúmlega 200 og íbúum milli 30 til 39 ára um tæplega 400 einstaklinga á þessum 20 árum. Þessi þróun gæti bent til þess að fleiri ungmenni kjósi að setjast að á Austurlandi eftir nám, stundi nám á Austurlandi eða fari beint út á vinnumarkaðinn. Einnig má áætla að hluti þessa fólks sé aðfluttur, fólk sem hafi flutt til svæðisins sérstaklega til að vinna á stórum vinnustöðum eins og Alcoa Fjarðaáli. Þessi þróun er jákvæð fyrir vinnumarkaðinn og efnahagslíf svæðisins, þegar aldurshópurinn sem er rétt að hefja sinn starfsferil er virkur á vinnumarkaðnum.

Aldurshópurinn 20-29 ára eignast hlutfallslega færri börn en fyrir 20 árum. Ástæður geta verið margvíslegar; en bent hefur verið á að frelsi frá staðalmyndum hefur á margan hátt aukist og val um barnlausan lífsstíl ekki lengur jafn framandi og áður. Einnig eru ytri ástæður taldar áhrifavaldur s.s. óhagstæður fasteignamarkaður. Þetta er í samræmi við þróun á landsvísu þar sem fæðingartíðni hefur lækkað á undanförnum árum. En á Austurlandi hefur fækkað um 100 einstaklinga í aldurshópnum 10 til 19 ára og börn undir 10 ára eru aðeins 12 fleiri 2024 en voru 2004.

Í hópi einstaklinga á aldrinum 40-49 ára eru 60 færri en voru 2004 Ekki er fullljós skýring á því hvers vegna er fækkun í þessum hópi. En í hópi 50 til 59 ára eru tæplega 200 fleiri og veruleg fjölgun er í hópi eldra fólks og eldri borgara. Þessi aukning endurspeglar hærri lífaldur á landsvísu og betri heilsu eldri kynslóða en hún sýnir þó einnig vaxandi þörf á aukinni heilbrigðisþjónustu.

Samantekið sýna þessar breytingar á íbúasamsetningu á Austurlandi flókna þróun þar sem bæði jákvæðar breytingar og áskoranir eru til staðar. Fjölgun í yngri aldurshópum fullorðinna er jákvæð, en fækkun barna og mikil fjölgun eldra fólks kallar á endurskoðun á þjónustu og stefnumótun til að mæta breyttum þörfum samfélagsins.

Íbúum fjölgar hratt á Egilsstöðum og Reyðarfirði – en hvað með jaðarsvæðin?

Undanfarin 20 ár hefur íbúafjöldinn á Austurlandi þróast mest á miðsvæðinu, þ.e. íbúum hefur fjölgað á Egilsstöðum, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Nesskaupstað en fækkað á jöðrunum, að undarskildum Djúpavogi.

Þannig hefur fjölgað um 105% á Reyðarfirði, eða úr tæplega 700 íbúum í tæplega 1500. Eins hefur íbúum á Egilstöðum fjölgað mikið og eru í dag yfir 3.000 en voru rúmlega 1700 fyrir 20 árum. Staðir í næstu nálægð við álverið hafa einnig stækkað en bæði Eskifjörður og Fáskrúðsfjörður hafa fleiri íbúa nú en fyrir 20 árum. Líklega má draga þá ályktun að atvinnuuppbygging haldist í hendur við íbúaþróun og þrátt fyrir að vera á jaðri austurlands, hefur íbúum fjölgað á Djúpavogi, en þar hefur orðið mikil uppbygging í laxeldi. Á Vopnafirði sem er á hinum jaðrinum hefur fækkað um næstum 100 manns, en þar hefur atvinnulífið staðið nokkuð í stað síðustu 20 ár.

Hlutfallslega mest hefur fækkað í Mjóafirði, þar hefur íbúum fækkað um helming, úr 37 í 16, en hafa ber í huga að svo fámennir hópar sýna hlutfallslega stærri sveiflur og þó íbúum hafi fækkað um 21 manneskju þá er fækkun talin í fleiri einstaklingum þar þó hlutfallið sé lægra. Borgarfjörður eystri og Stöðvarfjörður hafa báðir verið skilgreindir sem brothættar byggðir og tekið þátt í verkefni Byggðastofnunar fyrir slíka staði. Þrátt fyrir að íbúum hafi fækkað á báðum stöðum á þessum 20 árum sem hér eru skoðuð, hægði á og jafnvel fjölgaði þegar verkefnin hófust á stöðunum.

Austfirðingum fjölgað um 17% frá 2004

 


Austfirðingum hefur fjölgað um 17,3% á síðustu 20 árum, mest á árunum 2004 til 2007. Hlutfall Austfirðinga af heildarmannfjölda landsins lækkar hins vegar úr 3,25% árið 2004 í 2,8% árið 2024.   Mest fjölgun hefur verið á Egilsstöðum og Reyðarfirði og aðeins minni í nálægum byggðakjörnum, á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og í Neskaupsstað. Hins vegar hefur íbúum fækkað í öllum smærri byggðalögum, að Djúpavogi frátöldum. Börnum og unglingum á Austurlandi hefur fækkað, ungu fólki á aldrinum 20-39 ára hefur fjölgað, fólki á aldrinum 40-49 fækkar en íbúum 50 ára og eldri hefur fjölgað verulega.

Þessar niðurstöður sýna bæði jákvæðar breytingar og um leið vaxandi áskoranir sem kallar á endurskoðun á þjónustu og stefnumótun til að mæta breyttum þörfum samfélagsins.

Í Sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar hefur verið safnað hinum ýmsu mælingum í 20 ár, eða frá 2004. Á þessu ári fer fram uppgjör á þeim gögnum sem safnast hafa í verkefninu og eru íbúatölur og þróun íbúa á Austurlandi fyrsta samantektin.

 

 

  2004 2014 2024
Höfuðborgarsvæði 181.917 204.215 244.177
Norðurland eystra 28.402 28.834 34.076
Suðurland 23.859 25.908 31.574
Suðurnes 16.953 21.251 30.933
Vesturland 14.438 15.258 17.419
Austurland 9.454 10.253 11.085
Norðurland vestra 7.812 7.155 7.294
Vestfirðir 7.736 6.844 7.168
Landið allt 290.571 319.718 383.726

 

Árið 2004 voru íbúar á Austurlandi 9.454 en 20 árum síðar voru þeir 11.085, aukning um 17,3%. Mest jókst íbúafjöldi á árunum 2004 til 2007, samhliða framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði. Frá árinu 2007 hefur vöxturinn verið hægari. Þó íbúum hafi fjölgað, hefur hlutfall Austurlands af heildarmannfjölda landsins minnkað úr 3,25% árið 2004 í 2,8% árið 2024, sem sýnir ójafnvægi í þróun mannfjölda á landsvísu. 

Íbúaþróun annarra landshluta á árunum 2004-2024 hefur verið mest á suðvesturhorninu, þar sem 82% fjölgun hefur verið á Suðurnesjunum og 34% á höfuðborgarsvæðinu og þar á eftir 32% á Suðurlandi. Fækkað hefur um 7% á bæði Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Uppfærsla á 3.1.2 Fasteignaverð

Nýlega var uppfærður vísir 3.1.2 um fasteignaverð á Austurlandi. Þessi uppfærsla felur í sér ítarlega greiningu á meðalfermetraverði fjöl- og sérbýlis á Austurlandi, sem er borið saman við höfuðborgarsvæðið, landsbyggðina og landið allt.

Samkvæmt nýjustu gögnum hefur meðalfermetraverð á Austurlandi hækkað á undanförnum árum, en er enn lægra en á höfuðborgarsvæðinu og landsmeðaltali. Þessi þróun endurspeglar breytingar á fasteignamarkaði á svæðinu og gefur vísbendingar um aðgengi að húsnæði og þróun fasteignaverðs í samanburði við aðra landshluta.

Uppfærð gögn og frekari upplýsingar sjá á síðu vísis 3.1.2 Fasteignaverð

Uppfærsla á 2.1.2 Vatnshæð og rennsli í ám

Nýjar mælingar fyrir vatnshæð og rennsli í ám á Austurlandi hafa verið uppfærðar fyrir þetta ár. Þessi gögn veita mikilvægar upplýsingar um stöðu vatns í Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljóti. Þau sýna þróun vatnshæðar og rennslis á þessum svæðum, sem getur haft áhrif á umhverfisástand og nýtingu náttúruauðlinda. Nýjustu tölurnar eru nú aðgengilegar og hægt er að skoða þær á vefsíðunni hér.

Húsnæðismál á Austurlandi

Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins var haldinn í Valaskjálf, Egilsstöðum miðvikudaginn 27. apríl og var þema fundarins Húsnæðismál á Austurlandi. Fundarstjóri á fundinum var Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Einar Már Sigurðarson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, flutti upphafsávarp og setti fundinn.


Fyrst tók til máls Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum Iðnaðarins.

Jóhanna fór yfir stöðuna á Austurlandi og benti á að meðal fermetraverð á Austurlandi er enn undir meðal byggingarkostnaði á fermetra og er það áhyggjuefni varðandi það að geta selt nýbyggingar.

 


Á eftir Jóhönnu tók Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, til máls.

Hann vakti athygli á þeim miklu sveiflum í fasteignaverði milli byggðakjarna á Austurlandi, en verðið hefur hækkað töluvert. Gríðarleg eftirspurn er ástæða þess hvernig húsnæðismarkaðurinn er núna eins og hann er.

 


Sigurður Magnússon, löggildur fasteignasali hjá INNI fasteignasölu, flutti næsta erindi.

Siguður fór aðeins yfir stöðuna á Austurlandi og benti á að á síðustu 4 árum hefur framboð á fasteignum á Austurlandi hrunið úr því að vera um 50 eignir á hverjum tíma niður í 0-10. Góðar fasteignir fara mjög hratt, og sem dæmi tók hann um eign sem hækkaði um 20% á 5 mánuðum.

 


Hafliði Hörður Hafliðason framkvæmdastjóri hjá Héraðsverki flutti fyrsta erindi eftir hádegisverð.

Hann fjallaði um mikilvægi þess að mynda einhverja framtíðarsýn varðandi íbúðarhúsnæði. Hvernig viljum við sjá byggðina vaxa? Hann benti sérstaklega á mikilvægi þess að heyra hvaða sýn ungafólkið hefur varðandi uppbyggingu og húsnæðismál.

 

 


Smári Kristinsson, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaál, fór yfir hvernig íbúðamál á Austurlandi snúa að fyrirtækinu.

Hann benti á að tölur frá þeim sýna að nýir starfsmenn búa í vaxandi mæli utan Austurlands. Hann benti á að fólk hefur hætt við að koma og ráða sig til vinnu hjá fyrirtækinu vegna þess að ekki finnst húsnæði. Staðan mun bara versna meðal annars vegna fyrirhugaðrar atvinnuppbyggingar á svæðinu.

 


Ólafur Arnar Jónsson, forstöðumaður Nærsamfélagsins og græns reksturs hjá Landsvirkjun, talaði um vinnu Landsvirkjunar í tengslum við samfélagsmál og stefnu fyrirtækisins varðandi það.

Stefnan gengur út á að Landsvirkjun vill vera góður granni, vera í uppbyggilegum samskiptum við samfélagið og stuðla þar að nýjum tækifærum í sínu umhverfi.

 


Að loknum erindum voru pallborðsumræður. Í pallborði sátu (f.v.) Eydís Ásbjörnsdóttir frá Fjarðabyggð, Hafliði Hörður Hafliðason frá Héraðsverki, Stefán Bogi Sveinsson frá Múlaþingi, Kári S. Friðriksson frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Jóhanna Klara Stefánsdóttir frá Samtökum iðnaðarins.

Spurningar og svör úr pallborði verða gerðar aðgengilegar á heimasíðu verkefnisins á næstu dögum ásamt upptökum og glærum af erindum.

Nokkrar svipmyndir af fundinum

Uppfærsla á vísi 3.1.2 - Fasteignaverð

Verið var að ljúka við uppfærslu á vísi um fasteignaverð. Í tilefni af ársfundi sjálfbærniverkefnisins var gerð ítarlegri greining á íbúðarhúsnæði á Austurlandi. Meðal fermetraverð á fjöl- og sérbýli á Austurlandi skoðað og borið saman við höfuðborgarsvæðið, landsbyggðina og landið allt. Stefnt er að því að gera ítarlegri greiningu á gögnum, um leið og þau verða aðgengileg. 

Uppfærð gögn má sjá á síðu vísisins á slóðinni 3.1.2 Fasteignaverð | Sjálfbærniverkefni á Austurlandi (sjalfbaerni.is)

Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins 2022

Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins 2022 verður haldinn í Valaskjálf á Egilsstöðum miðvikudaginn 27. apríl kl. 10:00-14:00

Þema fundarins Húsnæðismál á Austurlandi. Dagskrá verður kynnt á næstu dögum.

Skráning á ársfund 2022


 

Uppfærsla á 3.2 Fjármál sveitafélaga

Lokið hefur verið við uppfærslu á vísum 3.2.1-3.2.4 sem snúa að fjármálum sveitarfélaganna. Sú breyting hefur orðið á vísunum að áður var verið að fylgjast með  fjármálum hjá sveitarfélögum sem tilheyrðu áhrifasvæði framkvæmdanna. Fyrir sameiningu Múlaþings var ekki verið að fylgjast með stöðunni á Djúpavogi, en í nýju sameinuðu sveitarfélagi hefur sú tölfræði bæst við. Því voru vísarnir endurreiknaðir miðað við breyttar forsendur.

3.2.1 - Útsvarstekjur

3.2.2 - Hlutfall tekna og gjalda

3.2.3 - Framlegð

3.2.4 - Skuldastaða

Uppfærsla á vísi 1.5.1

Við uppfærslu gagna voru fleiri gögn um afbrot á Austurlandi skoðuð. Ákveðið var að bæta inn gögnum um umferðalagabrot og bera saman Austurland við öll embætti á landinu. Hér fyrir neðan má sjá mynd af fjölda umferðalagabrota á hverja 10.000 íbúa.