Fara í efni

Fréttir - Sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar

Uppfærsla á 3.1.2 Fasteignaverð

Nýlega var uppfærður vísir 3.1.2 um fasteignaverð á Austurlandi. Þessi uppfærsla felur í sér ítarlega greiningu á meðalfermetraverði fjöl- og sérbýlis á Austurlandi, sem er borið saman við höfuðborgarsvæðið, landsbyggðina og landið allt.

Samkvæmt nýjustu gögnum hefur meðalfermetraverð á Austurlandi hækkað á undanförnum árum, en er enn lægra en á höfuðborgarsvæðinu og landsmeðaltali. Þessi þróun endurspeglar breytingar á fasteignamarkaði á svæðinu og gefur vísbendingar um aðgengi að húsnæði og þróun fasteignaverðs í samanburði við aðra landshluta.

Uppfærð gögn og frekari upplýsingar sjá á síðu vísis 3.1.2 Fasteignaverð

Uppfærsla á 2.1.2 Vatnshæð og rennsli í ám

Nýjar mælingar fyrir vatnshæð og rennsli í ám á Austurlandi hafa verið uppfærðar fyrir þetta ár. Þessi gögn veita mikilvægar upplýsingar um stöðu vatns í Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljóti. Þau sýna þróun vatnshæðar og rennslis á þessum svæðum, sem getur haft áhrif á umhverfisástand og nýtingu náttúruauðlinda. Nýjustu tölurnar eru nú aðgengilegar og hægt er að skoða þær á vefsíðunni hér.

Húsnæðismál á Austurlandi

Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins var haldinn í Valaskjálf, Egilsstöðum miðvikudaginn 27. apríl og var þema fundarins Húsnæðismál á Austurlandi. Fundarstjóri á fundinum var Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Einar Már Sigurðarson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, flutti upphafsávarp og setti fundinn.


Fyrst tók til máls Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum Iðnaðarins.

Jóhanna fór yfir stöðuna á Austurlandi og benti á að meðal fermetraverð á Austurlandi er enn undir meðal byggingarkostnaði á fermetra og er það áhyggjuefni varðandi það að geta selt nýbyggingar.

 


Á eftir Jóhönnu tók Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, til máls.

Hann vakti athygli á þeim miklu sveiflum í fasteignaverði milli byggðakjarna á Austurlandi, en verðið hefur hækkað töluvert. Gríðarleg eftirspurn er ástæða þess hvernig húsnæðismarkaðurinn er núna eins og hann er.

 


Sigurður Magnússon, löggildur fasteignasali hjá INNI fasteignasölu, flutti næsta erindi.

Siguður fór aðeins yfir stöðuna á Austurlandi og benti á að á síðustu 4 árum hefur framboð á fasteignum á Austurlandi hrunið úr því að vera um 50 eignir á hverjum tíma niður í 0-10. Góðar fasteignir fara mjög hratt, og sem dæmi tók hann um eign sem hækkaði um 20% á 5 mánuðum.

 


Hafliði Hörður Hafliðason framkvæmdastjóri hjá Héraðsverki flutti fyrsta erindi eftir hádegisverð.

Hann fjallaði um mikilvægi þess að mynda einhverja framtíðarsýn varðandi íbúðarhúsnæði. Hvernig viljum við sjá byggðina vaxa? Hann benti sérstaklega á mikilvægi þess að heyra hvaða sýn ungafólkið hefur varðandi uppbyggingu og húsnæðismál.

 

 


Smári Kristinsson, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaál, fór yfir hvernig íbúðamál á Austurlandi snúa að fyrirtækinu.

Hann benti á að tölur frá þeim sýna að nýir starfsmenn búa í vaxandi mæli utan Austurlands. Hann benti á að fólk hefur hætt við að koma og ráða sig til vinnu hjá fyrirtækinu vegna þess að ekki finnst húsnæði. Staðan mun bara versna meðal annars vegna fyrirhugaðrar atvinnuppbyggingar á svæðinu.

 


Ólafur Arnar Jónsson, forstöðumaður Nærsamfélagsins og græns reksturs hjá Landsvirkjun, talaði um vinnu Landsvirkjunar í tengslum við samfélagsmál og stefnu fyrirtækisins varðandi það.

Stefnan gengur út á að Landsvirkjun vill vera góður granni, vera í uppbyggilegum samskiptum við samfélagið og stuðla þar að nýjum tækifærum í sínu umhverfi.

 


Að loknum erindum voru pallborðsumræður. Í pallborði sátu (f.v.) Eydís Ásbjörnsdóttir frá Fjarðabyggð, Hafliði Hörður Hafliðason frá Héraðsverki, Stefán Bogi Sveinsson frá Múlaþingi, Kári S. Friðriksson frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Jóhanna Klara Stefánsdóttir frá Samtökum iðnaðarins.

Spurningar og svör úr pallborði verða gerðar aðgengilegar á heimasíðu verkefnisins á næstu dögum ásamt upptökum og glærum af erindum.

Nokkrar svipmyndir af fundinum

Uppfærsla á vísi 3.1.2 - Fasteignaverð

Verið var að ljúka við uppfærslu á vísi um fasteignaverð. Í tilefni af ársfundi sjálfbærniverkefnisins var gerð ítarlegri greining á íbúðarhúsnæði á Austurlandi. Meðal fermetraverð á fjöl- og sérbýli á Austurlandi skoðað og borið saman við höfuðborgarsvæðið, landsbyggðina og landið allt. Stefnt er að því að gera ítarlegri greiningu á gögnum, um leið og þau verða aðgengileg. 

Uppfærð gögn má sjá á síðu vísisins á slóðinni 3.1.2 Fasteignaverð | Sjálfbærniverkefni á Austurlandi (sjalfbaerni.is)

Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins 2022

Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins 2022 verður haldinn í Valaskjálf á Egilsstöðum miðvikudaginn 27. apríl kl. 10:00-14:00

Þema fundarins Húsnæðismál á Austurlandi. Dagskrá verður kynnt á næstu dögum.

Skráning á ársfund 2022


 

Uppfærsla á 3.2 Fjármál sveitafélaga

Lokið hefur verið við uppfærslu á vísum 3.2.1-3.2.4 sem snúa að fjármálum sveitarfélaganna. Sú breyting hefur orðið á vísunum að áður var verið að fylgjast með  fjármálum hjá sveitarfélögum sem tilheyrðu áhrifasvæði framkvæmdanna. Fyrir sameiningu Múlaþings var ekki verið að fylgjast með stöðunni á Djúpavogi, en í nýju sameinuðu sveitarfélagi hefur sú tölfræði bæst við. Því voru vísarnir endurreiknaðir miðað við breyttar forsendur.

3.2.1 - Útsvarstekjur

3.2.2 - Hlutfall tekna og gjalda

3.2.3 - Framlegð

3.2.4 - Skuldastaða

Uppfærsla á vísi 1.5.1

Við uppfærslu gagna voru fleiri gögn um afbrot á Austurlandi skoðuð. Ákveðið var að bæta inn gögnum um umferðalagabrot og bera saman Austurland við öll embætti á landinu. Hér fyrir neðan má sjá mynd af fjölda umferðalagabrota á hverja 10.000 íbúa.

Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins

Í gær, miðvikudaginn 20. október, fór ársfundur Sjálfbærniverkefnis Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar fram í Valaskjálf á Egilsstöðum.

Aflýsa þurfti ársfundi verkefnisins í fyrra vegna heimsfaraldurs Covid-19 og var síðasti ársfundur því haldinn árið 2019. Þema fundarins að þessu sinni var jafnréttismál í víðu samhengi og fjölluðu fyrirlesarar á fundinum um jafnrétti frá ýmsum sjónarhornum. Bryndís Elfa Valdemarsdóttir frá Jafnréttisstofu setti jafnrétti í samhengi við sjálfbærni, Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir frá Austurbrú sagði frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar hafa verið á kynjamyndum á Austurlandi og þau Sturla Jóhann Hreinsson frá Landsvirkjun og Dagmar Ýr Stefánsdóttir frá Alcoa Fjarðaáli fjölluðu um vinnu fyrirtækjanna við aukið jafnrétti og þróun ýmissa verkefna á því sviði.

Ársfundinum var í fyrsta sinn streymt á netinu og hægt er að horfa á öll erindi hans á Youtube-rás Sjálfbærniverkefnisins.

Ársfundur 2021

Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins 2021 verður haldinn í Valaskjálf á Egilsstöðum miðvikudaginn 20. október kl. 10:00-14:00

Þema fundarins Jafnréttismál í víðu samhengi. Á fundinum munu sérfræðingar Jafnréttisstofu, Austurbrúar, Landsvirkjunar og Alcoa Fjarðaáls fjalla um jafnrétti frá ýmsum sjónarhornum.

Skráning á ársfund 2021


 

Dagskrá

Fundarstjóri: Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.
Kl. Lýsing Fyrirlesari Stofnun
10:00 Setning Jóna Bjarnadóttir Landsvirkjun
10:10 Jafnrétti í vegferðinni að sjálfbærni Bryndís Elfa Valdemarsdóttir Jafnréttisstofa
10:50 Kynjamynd af Austurlandi 2.0 Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir Austurbrú
11:30 Hádegisverður    
12:25 Jafnréttismál hjá Landsvirkjun Sturla Jóhann Hreinsson Landsvirkjun
13:05 Jafnréttismál hjá Alcoa Fjarðaáli Dagmar Ýr Stefánsdóttir Alcoa Fjarðaál
13:45 Breytingar á vísum    
13:55 Samantekt    
14:00 Fundarslit    

Nánari upplýsingar um ársfund Sjálfbærniverkefnis Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar 2021.

 

 

Ársfundi frestað

Í ljósi aðstæðna vegna Covid-19 og hertra sóttvarnaaðgerða hefur stýrihópur Sjálfbærniverkefnisins ákveðið að fresta ársfundi, sem fyrirhugaður var 27. apríl, til hausts. Nánari tímasetning verður auglýst síðar.