Fara í efni

Ársfundur 2019

Haldinn í safnaðarheimilinu á Reyðarfirði þriðjudaginn 30. apríl kl. 14 - 17 undir yfirskriftinni "Það veltur allt á gróðrinum"

Fundarstjóri: Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.


Dagskrá


Samantekt

Þátttakendur á ársfundinum voru rúmlega 30.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, setti fundinn. Hún fór yfir það hversu spennandi það væri að vera komin með eigin gögn sem lesa mætti úr niðurstöður umhverfismála. Þakkaði hún það því frumkvöðlastarfi að fara af stað með Sjálfbærniverkefnið ásamt góðu utanumhaldi þeirra sem hafa séð um umsýslu verkefnisins í gegnum tíðina.

Guðrún Schmidt, fræðslufulltrúi hjá Landgræðslunni, hélt erindið „Gróður er góður“. Hún fór yfir mikilvægi gróðurs og jarðvegs sem stjórnast af umhverfisþáttunum, veðurfari, jarðgrunni, gosvirkni og áhrifum mannsins. Undirstaða gróðurs er jarðvegurinn og jarðvegur verður ekki til án gróðurs. Í einni handfylli af jarðvegi eru fleiri lífverur en mannverur á jörðinni. Gróður og jarðvegur eru mikilvægir hlekkir í hringrásum vistkerfa eins og í hringrásum vatns, orku, næringarefna og kolefnis. Þá fór hún yfir vistkerfi og mikilvægi jarðvegs þar sem frjósamur jarðvegur er ekki endurnýjanleg auðlind. Það tekur jafnvel fleiri árhundruð að endurheimta jarðveg og gróður með svipuðu vistgetu og það sem hefur verið eytt af mannavöldum þannig að mótvægisaðgerðir verða seint sambærilegar og það vistkerfi sem var fyrir. Hnignun jarðvegs og gróðurs nær yfir 33% landsvæðis í heiminum í dag. Skiptir því miklu máli að við séum læs á landið okkar og komum í veg fyrir og stöðvum jarðvegs- og gróðureyðingu til að halda jafnvægi í náttúrulegum hringrásum. Samkvæmt samningum um sjálfbæra þróun og fleirum alþjóðlegum samningum ber okkur skylda til að efla jarðvegs- og gróðurvernd og endurvekja samband milli náttúru og menningar.

Guðrún Óskarsdóttir, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, flutti erindið „Sambýli gróðurs, beitardýra og iðnaðar á Austurlandi“. Fór hún yfir það að Snæfellsöræfi og Fljótsdalsheiði væru með bestu afréttarsvæðum landsins hvað varðar jarvegsrof. Hún lýsti aðferðum við gróðurvöktun og nefndi algengar plöntutegundir í mismunandi gróðurlendum. Hún sýndi mynd af einfölduðum fæðuvef, sem sýndi okkur að fæðuvefur er aldrei einfaldur. Allt snýst þetta um að viðhalda jafnvægi sem inngrip getur raskað. Þá fór hún yfir breytingar á hverju vöktunarsvæði fyrir sig. Við Kringilsárrana voru mestar breytingar í mólendi og bentu þær til aukins beitarálags gæsa. Breytingar á Vesturöræfum voru ekki eins miklar. Á Fljótsdalsheiði höfðu mestar breytingar orðið í hálfgrónu mólendi og bentu þær til aukinnar vetrarbeitar hreindýra á svæðinu og mögulega til hlýrri vetra. Það er þekkt að hlýnun valdi því að smærri plöntur hopi á meðan stærri plöntur dafni. Samkvæmt vöktun síðustu ára í Reyðarfirði virðist það tilfellið að lyngi og runnum fjölgar á sama tíma og mosi og fléttur hopa. Hopun flétta í Reyðarfirði gæti einnig tengst öðrum þáttum, t.d. hreindýrabeit. Gróðurfarsbreytingar verða yfir langan tíma og verða vegna margra samspilandi þátta, því er langtímavöktun gróðurs mikilvæg.

Erlín Emma Jóhannsdóttir, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, flutti erindið „Áhrif veðurfars og landslags á dreifingu og styrk flúors í gróðri“. Erlín byrjaði á því að útskýra fyrir fundargestum hvernig flúor berst í umhverfið frá álverum í formi gass og bundið rykögnum. Dreifingin og styrkur í andrúmslofti er háð mörgum samverkandi þáttum svo sem losun frá álveri, hæð stromps og stærð rykagna. Landslag og veðurfar hafa einnig mikil áhrifa á það hversu mikið og langt flúor dreifist. Þrengri dalir virka sem trekt fyrir vind og dreifingin verður því yfir stærra svæði og meiri þynningu. Hitabreytingar og veðurfar almennt hafa einnig mikil áhrif á dreifingu fllúors. Plöntur taka upp flúor í gegnum loftaugu. Aðeins lítill hluti flúors berst í gegnum rótarkerfið. Flúor veldur sjáanlegum skemmdum á jöðrum laufblaða. Ef styrkur flúors í lofti er hár er styrkur í plöntuvef einnig hár. Þegar styrkur flúors í plöntuvef fer yfir 30 µg/g hefst hnignun viðkvæmra tegundna plantna og við 100µg/g hefst hnignun miðlungsþolinna plöntutegunda. Styrkur flúors mælist mestur í 0-2 km fjarlægð frá álveri en lægstur og nálægt bakgrunnsgildum í 27 km fjarlægð. Vestur af álverinu er flúor mestur sem skýrist af ríkjandi austanáttum. Hægt var að greina samband milli loftgæða- og veðurfarsgagna og styrks flúors í grasi á Reyðarfirði. Styrkur í plöntum er hærri með auknum styrk flúors í lofti og með auknum lofthita. Styrkur er lægri með auknum vind og úrkomu.

Smári Kristinsson, framkvæmdarstjóri álframleiðslu og skautsmiðju, hélt erindið „Kerrekstur og umhverfismál“. Lágmörkun flúors er mikilvæg fyrir Alcoa Fjarðaál út frá umhverfismálum, heilsu starfsmanna, endurnýtingu flúors í framleiðsluferlinu og vegna starfsleyfis. Árið 2017 var losun flúors frá framleiðslu hvað minnst miðað við framleiðslu áls. Þróun losunar virðist vera sú að hún fari minnkandi með auknum tækniframförum og jafnvægi í rekstri. En með tíðari kerstöðvunum og kerlekum eykst losun og því er það kappsmál að öllu leyti að framleiðslan gangi snuðrulaust. Þar sem álverið er nýtt eru gerðar kröfur um að losun sé lítil og hefur Alcoa Fjarðaál ávallt kappkostað að lágmarka losun og verið vel undir mörkum starfsleyfis. Við framleiðslu á áli fer fram rafgreining. Þá er flúor notað sem hvati í rafgreiningarferlinu við að búa til ál úr súráli. Við það ferli þarf hitastigið að fara upp í 960°C en án hvatans þyrfti hitastigið að fara upp í bræðslumark súráls sem er 2050¨C með aukinni losun gróðurhúsalofttegunda. Reynt er eftir bestu getu að fanga Flúorið eftir vinnsluna til að minnka mengun og til endurnýtingar í rafgreiningarferlinu. Flúormengun verður helst þegar flúor fer í gegnum þak, út sem gas eða með ryki. Þeir ytri þættir sem hafa áhrif á flúormengun og ekki er hægt að stjórna eru veðurfar og birtustig. Það sem Alcoa Fjarðaál getur gert til að lágmarka mengun er að halda rekstri stöðugum, lágmarka ryk, stjórna loftflæði í kerskála, ganga vel frá kerlokum og lágmarka kerleka.

Ásrún Elmarsdóttir, verkefnisstjóri Landsvirkjunar, flutti erindið „Endurheimt gróðurs“. Samkvæmt umhverfisstefnu Landsvirkjunar leggur fyrirtækið áherslu á að þekkja umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitast við að draga úr þeim og stefnir m.a. að því að vera kolefnishlutlaust fyrirtæki árið 2030. Landsvirkjun hefur í getnum tíðina unnið að því að lágmarka rask, verjast jarðvegs- og gróðureyðingu, endurheimta gróður og stuðla að sjálfbærni vistkerfa. Aðgerðir snúa að uppgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Aðgerðir Landsvirkjunar ná yfir 243 km2 lands á Íslandi. Ásrún fór yfir breytingar á gróðurfari í tengslum við myndun Hálslóns, þar sem 32 km2 af grónu landi tapaðist. Markmiðið er að græða upp sambærilega stórt svæði. Endurheimt gróðurs er unnin í umsjón tveggja sjóða – Landbótasjóðs Norður-Héraðs sem hefur unnið að uppgræðslu á 64 km2 og Landbótasjóðs Fljótsdalshrepps. Að auki hefur Landsvirkjun/Fljótsdalsstöð unnið að uppgræðslu á um 9 km2 lands. Uppgræðslan hefur staðið yfir frá árinu 2003 og markmiðið er að gróðurinn á svæðinu verði sjálfbær. Meðalbinding kolefnis á uppgræddu landi áætluð að meðaltali um 2,1 tonn kolefni/hektari á ári en Landgræðslan mun meta og mæla framvindu gróðurs og kolefnisbindingu á uppgræðslusvæðunum árið 2019.

Fyrir fundinum lágu tillögur að breytingum á vísum: 1.1 Kynjahlutfall í vinnuafli, 1.6 Íslenskum lögum og reglugerðum fylgt, 1.12 Vinnumarkaðurinn, 2.4 Rof í árbakka Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts og 2.09 Olíu og efnalekar vegna framkvæmda og starfsemi. Þær voru allar samþykktar af fundarmönnum.

Að lokum gerði Karl Óttar Pétursson örstutta samantekt á fundinum. Upplýsandi og fræðandi fundur ásamt áhugaverðum fyrirlestrum þar sem við lærðum öll eitthvað af.


Breytingar á vísum

Á fundinum voru samþykktar eftirfarandi tillögur að breytingum á vísum.

1.1  Kynjahlutfall í vinnuafli
a - liður
Markmið:

Var

    • Landsvirkjun: 60% karlar og 40% konur árið 2015
    • Fjarðaál: 50% karlar og 50% konur árið 2015

Verður

    • Landsvirkjun: 60% karlar og 40% konur árið 2021
    • Fjarðaál: 50% karlar og 50% konur árið 2025

Rökstuðningur:   Uppfærð markmið í jafnréttisstefnu fyrirtækjanna.

 

1.6 Íslenskum lögum og reglugerðum fylgt
Hvað er mælt:  
    • Var:  Fjöldi atvika á ári þar sem lögum og reglum er ekki fylgt.
    • Verður:  Fjöldi frávika frá starfsleyfum
Áætlun um vöktun:  
    • Var:  Fjarðaál og Landsvirkjun fylgjast með þessum mælikvarða. Hvert atvik verður skráð.
    • Verður:  Talin eru frávik sem koma fram í reglubundnu eftirliti Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Austurlands.
    • Rökstuðningur:  Fyrri mælikvarði er of vítt skilgreindur og óraunhæfur. Fylgst hefur verið með fjölda athugasemda sem hafa komið fram vegna starfsleyfis og er það í samræmi við forsendur fyrir vali á vísi þar sem vísað er til starfsleyfis.

 

1.12 Vinnumarkaðurinn
a - liður
Áætlun um vöktun
  • Var: Starfsmannasvið Landsvirkjunar og mannauðsteymi Fjarðaáls safna þessum upplýsingum jafnóðum. Verktakar skila upplýsingum til þeirra starfsmanna innan fyrirtækja sem bera ábyrgð á vísinum
  • Verður: Starfsmannasvið Landsvirkjunar og mannauðsteymi Fjarðaáls safna þessum upplýsingum jafnóðum.
  • Rökstuðningur: Ógerlegt er að nálgast gögn frá verktökum.

 

2.04 - Rof í árbakka Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts
Vöktunaráætlun: 
  • Var: Sniðmyndir eru teknar á árbakka á völdum stöðum og merktar inn á kort. Mælingar verða framkvæmdar á fimm ára fresti.
  • Verður: Árlegar mælingar eru gerðar frá viðmiðunarpunkti (hæll) að bakkabrún. Samhliða eru myndir teknar af bakka.
  • Rökstuðningur:  Hælar voru settir niður 2005 sem núllpunktar. Hælar geta týnst og þá er settur nýr núllpunktur. Mælt er árlega.

 

2.09 – Olíu og efnalekar vegna framkvæmda og starfsemi
Hvað er mælt: 
  • Var: Fjölda atvika á ári með lekum yfir 20 lítra og lekum yfir 2000 lítra bæði á landi (virkjun og álver) og frá flutningaskipum sem eru við festar í höfn Fjarðabyggðar. (Áhrif framkvæmda: bein).
  • Verður: Fjölda atvika á ári með lekum yfir 20 lítra og lekum yfir 100 lítra bæði á landi (virkjun og álver) og frá flutningaskipum sem eru við festar í höfn Fjarðabyggðar. (Áhrif framkvæmda: bein).
Markmið: 
    • Var: 0 lekar yfir 20 lítrar – 0 lekar yfir 2.000 lítrar
    • Verður: 0 lekar yfir 20 lítrar – 0 lekar yfir 100 lítrar
    • Rökstuðningur:  Samkvæmt íslenskri reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi 884/2017 - 61. gr. er viðmið 100 lítrar en grunnviðmið Alcoa er 20 lítrar.

      Þátttakendur

      Nafn Fyrirtæki, stofnun, félag
      Aníta Júlíusdóttir Landsvirkjun
      Anna Berg Samúelsdóttir Fjarðabyggð
      Árni Jóhann Óðinsson Landsvirkjun
      Ásrún Elmarsdóttir Landsvirkjun
      Björn Ingimarsson Fljótsdalshérað
      Christoph Merschbrock Austurbrú
      Dagbjartur Jónsson Landsvirkjun
      Dagmar Ýr Stefánsdóttir Alcoa Fjarðaál
      Dagný Björk Reynisdóttir Alcoa Fjarðaál
      Erlín E. Jóhannsdóttir Náttúrustofa Austurlands
      Freyr Ævarsson Fljótsdalshérað
      Guðrún Á. Jónsdóttir Austurbrú
      Guðrún Óskarsdóttir Náttúrustofa Austurlands
      Guðrún Schmidt Landvernd
      Gunnar Gunnarsson Austurfrétt
      Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir Austurbrú
      Hjalti Jóhannesson Háskólinn á Akureyri
      Jóhanna Harpa Árnadóttir Landsvirkjun
      Jóna Árný Þórðardóttir Austurbrú
      Karl Óttar Pétursson Fjarðabyggð
      Kristín Ágústsdóttir Náttúrustofa Austurlands
      Lára Björnsdóttir  
      Lilja Dögg Björgvinsdóttir Austurbrú
      Páll Freysteinsson Alcoa Fjarðaál
      Rúnar Ingi Hjartarson Landgræðslan
      Sigrún Víglundsdóttir Austurbrú
      Sigurður Guðni Sigurðsson Landsvirkjun
      Sindri Óskarsson Landsvirkjun
      Smári Kristinsson Alcoa Fjarðaál
      Snorri Styrkársson Fjarðabyggð
      Sverrir H. Sveinbjörnsson Landsvirkjun
      Unnur B. Karlsdóttir Háskóli Íslands