Innflytjendur og samfélagið - samvinna sem skiptir máli
Á síðustu tveimur áratugum hefur íbúafjöldi á Austurlandi tekið breytingum, en ein helsta þróunin á þeim tíma er aukin fjölbreytni í íbúahópi svæðisins. Hlutfall innflytjenda hefur margfaldast frá aldamótum og árið 2024 er sjötti hver íbúi á Austurlandi af erlendum uppruna.
Þessi þróun er í takt við það sem sést annars staðar á landinu. Innflytjendur setjast að um allt land og gegna sífellt stærra hlutverki í íslensku samfélagi. Á Austurlandi hefur þessi þróun skipt sköpum – sérstaklega í ljósi þess að margir byggðakjarnar glíma við fólksfækkun og hækkandi meðalaldur íbúa.
Árið 2003 voru erlendir ríkisborgarar um 4% íbúa Austurlands, en árið 2024 hefur hlutfallið hækkað í tæp 17%. Það þýðir að nærri einn af hverjum sex íbúum á Austurlandi er nú af erlendum uppruna, þótt heildarfjöldi íbúa með íslenskt ríkisfang hafi staðið í stað eða dregist lítillega saman síðustu ár. Þróunin undirstrikar hversu mikilvægt hlutverk innflytjendur gegna í að halda uppi íbúafjölda og draga úr samdrætti í byggð á svæðinu.
Aukningin tengist að hluta til stóriðjuframkvæmdum á svæðinu, en mikilvægt er að hafa í huga að nýir íbúar koma ekki aðeins til starfa hjá álverinu, heldur vinna þau einnig í fjölbreyttum störfum til dæmis fiskvinnslu, ferðaþjónustu og ýmsum þjónustu- og umönnunarstörfum.
Á Austurlandi sinna innflytjendur sérstaklega mörgum störfum í fiskiðnaði og stóriðju, en 30% af starfsfólki Alcoa Fjarðaáls er fólk af erlendum uppruna, 26% starfsfólks Síldarvinnslunnar og 48% starfsfólks Loðnuvinnslunnar.
Teymið sem vinnur hér í Fjarðaáli er sannarlega fjölbreytt og það er hluti af því sem gerir vinnustaðinn jafn líflegan og hann er. Það er mikill mannauður í þessum hópi og við erum stolt af því að fólk komi víða að til þess að starfa fyrir Fjarðaál. Hluti af aðdráttaraflinu eru líklega launin, sem eru hærri í álverinu en bjóðast víða annarsstaðar. Fjölbreytnin nær út í gegnum fyrirtækið þar sem við höfum starfsfólk af erlendum uppruna í gríðarlega fjölbreyttum störfum og stjórnendastöðum.“
– Vigdís Diljá, stjórnandi samskipta- og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli
Menntun sem vannýttur mannauður
Nýjustu gögn frá Hagstofunni sýna að stór hluti innflytjenda á Austurlandi hefur lokið háskólanámi, en um 25% innflytjenda á svæðinu eru með háskólagráðu (bakkalár eða meira), á meðan hlutfallið er um 15% meðal íbúa með íslenskan bakgrunn. Einnig má sjá að innflytjendur eru í aðeins ríkari mæli með starfs- eða iðnmenntun en innfæddir. Þetta bendir til þess að margir innflytjendur hafi með sér mikla þekkingu, reynslu og menntun sem getur orðið samfélaginu dýrmæt. Þrátt fyrir það eru mörg þeirra í störfum þar sem þessi menntun nýtist ekki að fullu. Hér eru augljós tækifæri til að nýta betur þennan mannauð sem þegar er til staðar í samfélaginu okkar. Nánar verður skrifað um menntun Austfirðinga í sér umfjöllun úr gögnum Sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi sem birt verður á sjálfbærni.is.
|
Fjarðabyggð |
Múlaþing |
Vopnafjörður |
Fljótsdalur |
Austurland |
---|---|---|---|---|---|
Íbúar |
5.163 |
5.177 |
650 |
95 |
11.085 |
Íslenskt ríkisfang |
4.154 |
4.406 |
581 |
78 |
9.219 |
Erlent ríkisfang |
1.009 |
771 |
69 |
17 |
1.866 |
% með erlent ríkisfang |
20% |
15% |
11% |
18% |
17% |
Fjöldi upprunalanda |
45 |
51 |
17 |
10 |
66 |
Fjölmennasti hópur |
Pólland 595 |
Pólland 220 |
Pólland 27 |
* |
Pólland 842 |
Næst fjölmennasti |
Rúmenía 115 |
Úkraína 42 |
Búlgaría 11 |
* |
Rúmenía 153 |
Tungumálið er lykillinn að samfélaginu
Til að styðja við þátttöku innflytjenda í samfélaginu þarf að tryggja raunhæf tækifæri til aðlögunar – og þar vegur kunnátta í íslensku þungt. Austurbrú sér um íslenskunámskeiðin „íslenska sem annað mál“ og sækja um 280 einstaklingar þau námskeið árlega. Sá fjöldi endurspeglar þó illa þann hóp sem í raun býr á Austurlandi, en innflytjendur telja yfir 1850 manns.
Síldarvinnslan hefur gert tveggja ára samning við Austurbrú um íslenskukennslu á vinnutíma, þar sem starfsfólk fær tvisvar til þrisvar í viku fjarkennslu í íslensku. Með því fylgja þau fordæmi Búlandstinds á Djúpavogi (nú Kaldvík), en fyrirtækið veitti starfsfólki sínu íslenskukennslu bæði á vinnutíma og á vinnustað. Alcoa Fjarðaál hefur sömuleiðis farið nýstárlega leið og býður öllum starfsmönnum að læra íslensku í gegnum snjallforritið „Bara tala“, annað hvort með leiðbeinanda á staðnum eða sjálfstætt. Framtakið hefur vakið mikla ánægju meðal starfsfólks af erlendum uppruna innan fyrirtækisins og hefur meirihluti þeirra skráð sig til þátttöku.
Hér er tækifæri fyrir atvinnulífið til að stíga inn, taka af skarið og bjóða upp á raunhæfar lausnir sem styðja við íslenskunám og samfélagsaðlögun fyrir sitt erlenda starfsfólk.
Upprunaland |
Fjöldi |
---|---|
Pólland |
842 |
Rúmenía |
153 |
Litáen |
97 |
Úkraína |
73 |
Spánn |
53 |
Þýskaland |
50 |
Lettland |
47 |
Tékkland |
47 |
Danmörk |
41 |
Ungverjaland |
35 |
Filippseyjar |
33 |
Reynslan af fyrstu hendi
Barbara Izabela Kubielas, sem býr í Fjarðabyggð, segir samfélagið á Íslandi almennt móttækilegt gagnvart innflytjendum. Hún nefnir að enskan nýtist víða og að margar upplýsingar séu aðgengilegar á pólsku. Hún hefur búið hér á landi síðan 2008 og segir að í daglegu lífi sé auðvelt að hitta aðra Pólverja sem veita stuðning, bæði í verslunum, skólum og á vinnustöðum. Hún telur það skipta miklu máli að hafa aðgang að íslenskunámi og nefnir sérstaklega jákvætt dæmi þar sem pólskir kennarar jafnvel leiði stundum íslenskunámskeið.Að hennar mati er lífsstíllinn á Austurlandi rólegri og einfaldari en í borginni – og aðlögun geti gengið hratt ef fólk kýs að búa hér. Hún segir pólska samfélagið í Fjarðabyggð vera virkt – Pólverjar taki þátt í menningarviðburðum og daglegu lífi, meðal annars í gegnum börn sín sem læra bæði pólsku og íslensku. Viðburðir á borð við pólskan kvikmyndadag í Eskifirði og fundir sem haldnir eru í samstarfi við bæjaryfirvöld hafi einnig stuðlað að auknum tengslum. Þó að enn finnist tregða meðal sumra til að taka þátt, til dæmis vegna tungumála- eða menningarlegra hindrana, þá upplifi hún að ár frá ári verði pólska samfélagið hugrakkara og virkara hluti af heildinni. Fjölgun innflytjenda hefur þannig verið mikilvæg forsenda þess að halda úti nauðsynlegri þjónustu og atvinnulífi. Hún hefur líka fært með sér nýja menningu, reynslu og sjónarhorn sem styrkja samfélögin og stuðla að aukinni tengingu við alþjóðlegt umhverfi. Þó þróunin sé í grunninn jákvæð, fylgja henni einnig áskoranir. Þættir eins og húsnæðismál, tungumálakunnátta og aðgengi að upplýsingum geta haft áhrif á það hversu vel nýir íbúar aðlagast og finni sig í samfélaginu. Þar skiptir máli að sveitarfélög, stofnanir og atvinnulíf vinni saman að því að skapa umgjörð sem styður við þátttöku allra.
Þróun í íbúasamsetningu á Austurlandi síðustu tvo áratugi sýnir skýrt að innflytjendur gegna sífellt veigameira hlutverki í samfélaginu. Á meðan fjöldi íbúa með íslenskt ríkisfang hefur staðið í stað eða jafnvel dregist saman, hefur hlutfall íbúa með erlent ríkisfang aukist jafnt og þétt. Frá árinu 2003 hefur fjöldi innflytjenda meira en sexfaldast og eru þau nú tæplega 17% íbúa á svæðinu. Þessi þróun hefur dregið úr fólksfækkun, haldið uppi atvinnulífi og fært með sér nýja menningu, þekkingu og kraft sem styrkir samfélagið í heild.
Athyglisvert er að þessi vöxtur hefur átt sér stað án verulegrar fjölgunar íslenskra ríkisborgara á svæðinu, sem undirstrikar að fólksfjölgun á Austurlandi undanfarin ár hefur alfarið verið drifin áfram af innflytjendum.
Hvernig við komum saman – og verðum samfélag
Verkefnið Þetta er samfélagið okkar hjá Austurbrú hlaut nýverið styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála og hefur það að markmiði að efla inngildingu innflytjenda á Austurlandi, meðal annars með því að bæta aðgengi að upplýsingum, styrkja þátttöku í samfélagsmálum og skapa vettvang fyrir samtal og samstarf milli ólíkra hópa.
Auk þess útskrifuðust fyrir ári sex konur af námsbraut fyrir samfélagstúlka hjá Austurbrú, sem veitir þátttakendum hæfni til að sinna túlkunarverkefnum á faglegan hátt og styður þannig við inngildingu í fjölbreyttum aðstæðum í samfélaginu. Námið var kennt á þremur mánuðum og þátttakendur komu meðal annars frá Póllandi og Úkraínu. Slík verkefni sýna að inngilding felst ekki aðeins í formlegu námi, heldur líka í samfélagslegum tengslum og sameiginlegri upplifun.
Þannig var viðburðurinn Connected by food haldinn í fyrsta sinn árið 2024 og aftur nú í maí 2025. Þar sem fólk af ólíkum uppruna kom saman og deilir matarmenningu sinni. Í ár var í boði matur frá 17 löndum og fjölmenni mætti til að smakka, spjalla og kynnast – lifandi og áhrifarík leið til að tengja fólk saman yfir góðum mat. Verkefnið var styrkt af Múlaþingi og Sóknaráætlun Austurlands.

Graf: Íbúaþróun á Austurlandi 1998-2024. Á síðustu tveimur áratugum hefur hlutfall innflytjenda á Austurlandi vaxið stöðugt og breytt sjálfri samfélagsmynd svæðisins. Innflytjendur hafa orðið helsti drifkrafturinn að baki fólksfjölgun svæðisins – og eru lykilhluti framtíðar byggðar á Austurlandi.

Graf: Fjarðabyggð - íbúaþróun 2020-2024 meðal breyting á fjölda í aldurshópum eftir íslensku eða erlendu ríkisfangi.
Þegar horft er til aldursskiptingar íbúa Fjarðabyggðar síðustu ár kemur skýrt í ljós að það eru innflytjendur sem drífa áfram fjölgunina þar – sérstaklega á vinnumarkaði, þar sem fjöldi innflytjenda á aldrinum 20–49 ára hefur vaxið verulega. Einnig sést aukning hjá börnum á grunnskólaaldri og yngri, á meðan fjöldi barna með íslenskt ríkisfang heldur áfram að dragast saman. Mestur vöxtur mælist þó meðal eldri borgara, þar sem fjöldi innflytjenda á aldrinum 68–79 ára hefur aukist um 22%.
Þróunin sem við sjáum er ekki bara tölfræði á grafi – hún er áminning um að innflytjendur gegna lykilhlutverki í framtíð Austurlands. Fjölbreytt samfélag verður ekki til af sjálfu sér, það þarf að rækta það. En þegar innflytjendur fá raunveruleg tækifæri til þátttöku, styrkjumst við öll sem heild.
Þetta er fjórða og síðasta fréttin í röð um íbúaþróun á Austurlandi.
Meðal næstu viðfangsefna verða jafnrétti á vinnumarkaði, tekjutölur Austfirðinga og menntun.
Ábm: Lilja Sif Magnúsdóttir liljasif@austurbru.is