Austfirðingum fjölgað um 17% frá 2004
Austfirðingum hefur fjölgað um 17,3% á síðustu 20 árum, mest á árunum 2004 til 2007. Hlutfall Austfirðinga af heildarmannfjölda landsins lækkar hins vegar úr 3,25% árið 2004 í 2,8% árið 2024. Mest fjölgun hefur verið á Egilsstöðum og Reyðarfirði og aðeins minni í nálægum byggðakjörnum, á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og í Neskaupsstað. Hins vegar hefur íbúum fækkað í öllum smærri byggðalögum, að Djúpavogi frátöldum. Börnum og unglingum á Austurlandi hefur fækkað, ungu fólki á aldrinum 20-39 ára hefur fjölgað, fólki á aldrinum 40-49 fækkar en íbúum 50 ára og eldri hefur fjölgað verulega.
Þessar niðurstöður sýna bæði jákvæðar breytingar og um leið vaxandi áskoranir sem kallar á endurskoðun á þjónustu og stefnumótun til að mæta breyttum þörfum samfélagsins.
Í Sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar hefur verið safnað hinum ýmsu mælingum í 20 ár, eða frá 2004. Á þessu ári fer fram uppgjör á þeim gögnum sem safnast hafa í verkefninu og eru íbúatölur og þróun íbúa á Austurlandi fyrsta samantektin.
2004 | 2014 | 2024 | |
---|---|---|---|
Höfuðborgarsvæði | 181.917 | 204.215 | 244.177 |
Norðurland eystra | 28.402 | 28.834 | 34.076 |
Suðurland | 23.859 | 25.908 | 31.574 |
Suðurnes | 16.953 | 21.251 | 30.933 |
Vesturland | 14.438 | 15.258 | 17.419 |
Austurland | 9.454 | 10.253 | 11.085 |
Norðurland vestra | 7.812 | 7.155 | 7.294 |
Vestfirðir | 7.736 | 6.844 | 7.168 |
Landið allt | 290.571 | 319.718 | 383.726 |
Árið 2004 voru íbúar á Austurlandi 9.454 en 20 árum síðar voru þeir 11.085, aukning um 17,3%. Mest jókst íbúafjöldi á árunum 2004 til 2007, samhliða framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði. Frá árinu 2007 hefur vöxturinn verið hægari. Þó íbúum hafi fjölgað, hefur hlutfall Austurlands af heildarmannfjölda landsins minnkað úr 3,25% árið 2004 í 2,8% árið 2024, sem sýnir ójafnvægi í þróun mannfjölda á landsvísu.
Íbúaþróun annarra landshluta á árunum 2004-2024 hefur verið mest á suðvesturhorninu, þar sem 82% fjölgun hefur verið á Suðurnesjunum og 34% á höfuðborgarsvæðinu og þar á eftir 32% á Suðurlandi. Fækkað hefur um 7% á bæði Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.