Ársfundur 2018
Haldinn á Hótel Héraði, Egilsstöðum, þriðjudaginn 8. maí kl. 14:00-18:00 undir yfirskriftinni "Hagnýting í þágu samfélagsins"
Fundarstjóri: Björn Ingimarsson bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði
Dagskrá
- 14:00 Setning, Óli Grétar Blöndal Sveinsson, Landsvirkjun
- 14:10 Sínum augum lítur hver á silfrið: Íbúar og mikilvægi búsetuskilyrða. Vífill Karlsson dósent við HA og ráðgjafi SSV
- 14:40 Hvað þarf til að Fljótsdalshéraði nýtist betur gögn sem safnað er í Sjálfbærniverkefninu?, Helga Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi Fljótsdalshéraðs.
- 14:55 Sjálfbærniverkefnið, hvað er það ?, Anna Berg Samúelsdóttir, umhverfisstjóri Fjarðabyggðar
- 15:10 Gögn, upplýsingar, þekking og viska!, Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar
- 15:25 Kaffi
- 16:00 Hópastarf. Leitað var svara við því hvernig Sjálfbærniverkefnið getur nýst Austfirðingum best.
- 17:00 Athyglisverðar niðurstöður vöktunar
- Framkvæmd virkjanaleyfis og HSAP úttekt Fljótsdalsstöð, Árni Jóhann Óðinsson, Landsvirkjun.
- Samfélagsskýrsla Alcoa Fjarðaáls og GRI vottun, Dagný Björk Reynisdóttir, Alcoa Fjarðaál.
- 17:40 Breytingar á vísum
- 17:50 Samantekt
- 18:00 Fundarslit
Samantekt
Þátttakendur á ársfundinum voru um 40 og tóku þeir virkan þátt í hópastarfi sem bar yfirskriftina „Hagnýting í þágu samfélags“ og tengist framtíðarsýn og þróun verkefnisins. Tillögur að breytingum á vísum 1.17 Gæði skóla, 1.18 Samfélagsleg velferð og 1.20 Framboð á menningarviðburðum voru lagðar fyrir fundinn.
Óli Grétar Blöndal Sveinsson framkvæmdarstjóri þróunarsviðs hjá Landsvirkjun setti fundinn. Hann fór yfir markmið verkefnisins sem sneru fyrst að uppbyggingu Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaáls. Allir eru sammála um að vel hafi tekist til við verkefnið og nýtist það vel innan Landsvirkjunar og Fjarðaáls þar sem áhugasömum er beint inn á vefinn. Hins vegar eru notendur fremur þröngur hópur og mikilvægt er að auglýsa verkefnið vel og markmið fundarins snýr því að hvernig verkefnið megi nýtast stærri hóp notenda.
Vífill Karlsson dósent við Háskólann á Akureyri og ráðgjafi hjá SSV flutti erindið „Sínum augum lítur hver á silfrið: Íbúar og mikilvægi búsetuskilyrða“. Vífill fór yfir íbúakönnun sem gerð hefur verið meðal landshlutanna utan höfuðborgarsvæðis, Norðurlands eystra og Austurlands. Hann fór yfir framkvæmd, túlkun og niðurstöður könnunarinnar. Hvað er það sem dregur fólk að eða ýtir því frá búsetu á stöðunum. Þá geta sveitarfélög borið sig saman við önnur, valin sveitarfélög. Könnunin var gerð á vinnusóknarsvæðum þar sem þau skýra betur búsetu heldur en sveitarfélagaskipting. Einnig voru hóparnir konur, ungir (18-34 ára) og sveitin sérstaklega skoðuð. Það sem skiptir einna mestu máli þegar komið er fjær höfuðborgarsvæðinu til búsetuskilyrða er: internet, almenningssamgöngur og vegakerfi. Það sem stóð upp úr yfir landið til góðra búsetuskilyrða er hamingja, gott mannlíf, atvinnumál, náttúrugæði, vegamál, málefni barnafjölskyldna og íbúðamál.
Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri á Fljótsdalshéraði flutti erindið „Hvað þarf til að Fljótsdalshéraði nýtist betur gögn sem safnað er í Sjálfbærniverkefninu?“ Helga telur að til þess þurfi að brjóta vísana betur niður á sveitarfélög svo sveitarfélögin geti fylgst markvissar með stöðu mála sem til skoðunar eru og þróun þeirra í sveitarfélaginu. Þá tiltók hún verkefni sem falla undir samfélagsvísa og tengjast fræðslumálum og menntun starfsmanna, nýbúum og samsetningu þess hóps, netþjónustu og vegakerfi. Auk þess nefndi hún samsetningu vinnumarkaðar og gæði þjónustu á ýmsum sviðum. Hvað varðar efnahagsvísa nefndi hún m.a. kostnað við að búa hér á Austurlandi. Þá væri ákjósanlegt að hafa frekari gögn tengd menningarframboði, íþróttaaðstöðu og starfsemi frjálsra félagasamtaka á hverju svæði.
Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri Fjarðabyggðar flutti erindið ,,Sjálfbærniverkefnið, hvað er það“. Hún sendi fyrirspurn til allra á skrifstofu Fjarðabyggðar hvort þeir notuðu Sjálfbærniverkefnið í sinni vinnu. Þeir vissu af verkefninu en þekktu ekki heimasíðuna, nýta ekki gögnin eða að gögnin nýttust þeim ekki. Fór hún yfir hvað sjálfbærni er og upphaf þeirrar vinnu frá 1987. Mat á náttúru, samfélagi og efnahag. Sjálfbærniverkefnið aflar gagna og núna er það orðið 11 ára gamalt og fyrst hægt að lesa í gögnin núna. Kjarni verkefnisins er áhrif sem Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál hafa haft á svæðið. Verkefnið er framsýnt og áhugavert en gott væri að vísar þróuðust en á sama tíma er það varhugavert. Mætti bæta inn gögnum án þess að þau hefðu áhrif á þá vísa sem fyrir eru. Þá þarf að kynna verkefnið fyrir fræðasamfélaginu, stofnunum og fyrirtækjum.
Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdarstjóri Austurbrúar flutti erindið „Gögn, upplýsingar, þekking og viska!“ Kjarni vinnunnar er að safna saman gögnum og setja þau í samhengi, þá verða til upplýsingar sem verða að þekkingu og visku sem samfélagið og fyrirtækin eignast og geta notfært sér. Margir gagnabankar eru til á landinu og Sjálfbærniverkefnið sækir gögn á marga staði. Víddir verkefnisins ná til umhverfis, samfélags og efnahags. Austurbrú vinnur að því að Austurland verði staður fólks, fjárfesta og fyrirtækja sem vilja byggja upp sjálfbært samfélag. Umhverfi okkar stjórnast af stefnum stjórnvalda og á öllum sviðum er stefnt að sjálfbærum samfélögum. Til eru svæðisbundar stefnur og má þar nefna SSA – Sóknaráætlun Austurlands – Austurland*. Eitt af markmiðum Sóknaráætlunar var söfnun og miðlun upplýsinga og var þá nefnt að til yrði Rannsóknarmiðstöð Austurlands eða Hagstofa Austurlands. Það sem vantar er túlkun gagna – því gögnin eru til og töluverð vinna er í því að túlka gögnin á okkar landsvæði. Er forsenda til að útvíkka gagnasöfnun og upplýsingar af svæðinu frá Sjálfbærniverkefninu og ætlar samfélagið að nýta sér þá gagnaöflun?
Árni Jóhann Óðinsson fjallaði um úttekt á sjálfbærni Fljótsdalsstöðvar skv. alþjóðlegum matslykli (HSAP) sem gerð var í september 2017. Matið er gert af hlutlausum aðilum sem staðist hafa ákveðnar kröfur til þess að framkvæma það og niðurstöður eru settar fram á staðlaðan hátt til þess að auðvelda samanburð á þeim. Aðferðin hefur verið þróuð í mörg ár og er viðurkennd af mjög fjölbreyttum hópi hagsmunaaðila. Af þeim 17 efnisþáttum sem til skoðunar voru fyrir Fljótsdalsstöð - fékk stöðin fullt hús stiga í öllum þáttum nema 6 og var þar um eitt frávik að ræða frá best skilgreindri aðferðarfræði (ProvenBest Practice). Til grundvallar niðurstöðunni liggja mismunandi og mörg gögn, viðtöl við marga viðmælendur og vettvangsskoðun á áhrifasvæði virkjunarinnar. Einnig kynnti Árni úttekt á skilyrðum virkjanaleyfis Kárahnjúkavirkjunar sem Orkustofnun gerði á seinasta ári.
Dagný Björk Reynisdóttir, umhverfissérfræðingur frá Alcoa, sagði okkur frá þeirri vinnu sem snýr að samfélagsábyrgð Alcoa sem er aukinn hvati til ábyrgðar gagnkvæmt fólki og umhverfi. Samfélagsábyrgð tekur til sjálfbærrar þróunnar, væntinga hagsmunaaðila, að lög og alþjóðlegar reglur séu virtar og að opnum og góðum samskiptum. Jafnréttismál skipa stóran sess hjá Alcoa, umhverfismál, fræðsla og endurmenntun, öryggis- og heilsumál ásamt sjálfboðaliðastarfi og samskiptum við samfélagið. Samfélagsskýrslan dregur þessa þætti alla saman fyrir hvert ár og bætir yfirsýn. Ný heimasíða samfélagsskýrslunnar kom út á þessu ári. Nú þegar hafin vinna að næstu skýrslu samkvæmt staðli GRI. Alcoa tekur virkan þátt í að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda.
Björn Ingimarsson fór með örstutta samantekt af fundinum. Upplýsandi fundur sem kemur til með að nýtast í framhaldsvinnu. Vonandi verður Austurland með í næstu greiningu á íbúum og búsetuskilyrðum. Atriði sem Jóna, Helga og Anna Berg komu inn á ásamt öflugu hópastarfi hljóta að skila miklu inn til stýrihóps. Athyglivert að í erindum Dagnýar og Árna kemur fram hversu Sjálfbærniverkefnið skiptir miklu máli í vinnu fyrirtækjanna beggja sem eiga verkefnið.
Að lokum tók Björn Ingimarsson fyrir tillögur að breytingum á vísum verkefnisins og voru breytingar allar samþykktar.
Fe Amor Parel Guðmundsson kynnti sig á fundinum. Hún er í doktorsnámi við Háskóla Íslands og er að vinna að verkefni tengt sjálfbærni í markaðsstefnu orkufyrirtækja á Íslandi. Hún sagðist nota verkefnið í vinnu sinni og kæmi til með að kynna Sjálfbærni.is, þar á meðal í háskólum í Asíu, í tengslum við hennar rannsóknir.
Í hópavinnu á fundinum voru 10 spurningar um mikilvægi og hvernig Sjálfbærniverkefnið gæti komið að vinnu að þeim viðfangsefnum.
Breytingar á vísum
Á fundinum voru samþykktar eftirtaldar tillögur að breytingum á vísum
1.17 Gæði skóla
a-liður
Hvað er mælt:
- Var: Niðurstöður samræmdra prófa í grunnskóla (4., 7. og 10. bekk) á Austurlandi og Landsvísu
- Verður: Niðurstöður samræmdra prófa í grunnskólum á Austurlandi og á landsvísu.
- Ástæða: Ný reglugerð tók gildi í mars 2017 sem kveður á um að nú skuli samræmd próf lögð fyrir að vori í 9. bekk í stað 10. bekkjar áður.
b-liður
Hvað er mælt:
- Var: Hlutfall grunnskólakennara án réttinda á Austurlandi borið saman við á landsvísu.
- Verður: Hlutfall starfsfólks við kennslu án kennsluréttinda
- Ástæða: Grunnskólakennari er lögverndað starfsheiti og því ekkert til sem heitir grunnskólakennari án réttinda.
1.18 - Samfélagsleg velferð
b-liður
Hvað er mælt:
- Var: Slysatíðni á fjölda ekinna kílómetra á eftirtöldum leiðum.
-
- Egilsstaðir - Reyðarfjörður
- Fáskrúðsfjörður - Reyðarfjörður
- Egilsstaðir - Hallormsstaðaskógur
-
- Breyting: Við bætist leiðin: Reyðarfjörður - Norðfjörður
- Ástæða: Neskaupstaður og Eskifjörður eru innan atvinnusóknarsvæðis álversins og því eðlilegt að mælingar á slysatíðni innifeli þessa leið
1.20 Framboð á menningarviðburðum
Hvað er mælt?
- Var: Upplýsingum verður safnað jafnóðum með talningu auglýstra viðburða í svæðisbundnum fjölmiðlum.
- Verður: Úrtakskönnun meðal íbúa á Austurlandi.
Markmið
- Var: Fjöldi menningarviðburða meiri eða jafnt viðmiðunargildi
- Verður: Á ekki við, einungis um vöktun að ræða
Rökstuðningur: Vísirinn var ræddur í hópavinnu á ársfundi verkefnisins 2011. Þar kom eftirfarandi fram:
Vandamál: Mæling ónákvæm og huglægt mat þess sem safnar upplýsingum lagt til grundvallar niðurstöðu. Skilgreining á „menningarviðburði“ ekki skýrt skilgreind í vöktunaráætlun.
Niðurstaða vinnuhóps var sú að þessi vísir væri mjög mikilvægur fyrir verkefnið og nauðsynlegt væri að mæla þróun á einhvern hátt. Vandamál varðandi skilgreiningu á „menningarviðburði“ rædd og ákveðið að ánægjuvog væri betri aðferð til mælinga en talning auglýstra viðburða. Í stað þess að vera með stífa skilgreiningu á því hvað menningarviðburður er, var lagt til að leyfa svarendum að ákveða í sínum huga hvað menningarviðburður er án þess að þurfa að skilgreina það nánar.
Spurningin gæti hljóðað á eftirfarandi hátt: „Hversu ánægður ertu með framboð menningarviðburða á svæðinu?“ Svarendum svo gefið færi á að lýsa ánægju sinni á mælanlegan hátt með huglægu mati sem krefst ekki skilgreiningar á orðinu „menningarviðburður.“
Athugasemd varðandi þessa mælingu er að auk framboðs á menningarviðburðum væri hægt að kanna þátttöku í menningarviðburðum.
Stýrihóp falið að setja þessa aðferð við mælingu í framkvæmd. Ekki var tekin ákvörðun um könnun á þátttöku í menningarviðburðum.
Þátttakendur
Nafn | Fyrirtæki, stofnun, félag |
---|---|
Aníta Júlíusdóttir | Landsvirkjun |
Anna Alexandersdóttir | Austurbrú |
Anna Berg Samúelsdóttir | Fjarðabyggð |
Árni Jóhann Óðinsson | Landsvirkjun |
Björn Ingimarsson | Fljótsdalshérað |
Dagbjartur Jónsson | Landsvirkjun |
Dagmar Ýr Stefánsdóttir | Alcoa Fjarðaál |
Dagný Björk Reynisdóttir | Alcoa Fjarðaál |
Fe Amor P. Guðmundsson | HÍ |
Freyr Ævarsson | Fljótsdalshérað |
Guðmundur Kröyer | Alcoa Fjarðaál |
Guðrún Á. Jónsdóttir | Austurbrú |
Guðrún Óskarsdóttir | Náttúrustofa Austurlands |
Gunnar Jónsson | Fjarðabyggð |
Helga Guðmundsdóttir | Fljótsdalshérað |
Helgi Jóhannesson | Landsvirkjun |
Hilmar Sigurbjörnsson | Alcoa Fjarðaál |
Hjalti Jóhannesson | Rannsóknarmiðstöð HA |
Ívar Páll Jónsson | Landsvirkjun |
Jón Steinar Garðarsson Mýrdal | Austurbrú |
Jóna Árný Þórðardóttir | Austurbrú |
Jóney Jónsdóttir | Austurbrú |
Kristín Ágústsdóttir | Náttúrustofa Austurlands |
Lilja Dögg Björgvinsdóttir | Austurbrú |
Magnús Þór Ásmundsson | Alcoa Fjarðaál |
Ottó Valur Kristjánsson | Landsvirkjun |
Óðinn Gunnar Óðinsson | Fljótsdalshérað |
Óli Grétar Blöndal Sveinsson | Landsvirkjun |
Páll Freysteinsson | Alcoa Fjarðaál |
Ragna D. Davíðsdóttir | Fjarðabyggð |
Ragnheiður Ólafsdóttir | Landsvirkjun |
Sigbjörn Nökkvi Björnsson | Landsvirkjun |
Signý Ormarsdóttir | Austurbrú |
Sigrún Blöndal | SSA |
Sigrún Víglundsdóttir | Austurbrú |
Sigurður Guðni Sigurðsson | Landsvirkjun |
Sigurður Ólafsson | Síldarvinnslan |
Sindri Óskarsson | Landsvirkjun |
Smári Kristinsson | Alcoa Fjarðaál |
Snorri Styrkársson | Fjarðabyggð |
Vífill Karlsson | SSV |