Íbúum fjölgar hratt á Egilsstöðum og Reyðarfirði – en hvað með jaðarsvæðin?
Undanfarin 20 ár hefur íbúafjöldinn á Austurlandi þróast mest á miðsvæðinu, þ.e. íbúum hefur fjölgað á Egilsstöðum, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Nesskaupstað en fækkað á jöðrunum, að undarskildum Djúpavogi.
Þannig hefur fjölgað um 105% á Reyðarfirði, eða úr tæplega 700 íbúum í tæplega 1500. Eins hefur íbúum á Egilstöðum fjölgað mikið og eru í dag yfir 3.000 en voru rúmlega 1700 fyrir 20 árum. Staðir í næstu nálægð við álverið hafa einnig stækkað en bæði Eskifjörður og Fáskrúðsfjörður hafa fleiri íbúa nú en fyrir 20 árum. Líklega má draga þá ályktun að atvinnuuppbygging haldist í hendur við íbúaþróun og þrátt fyrir að vera á jaðri austurlands, hefur íbúum fjölgað á Djúpavogi, en þar hefur orðið mikil uppbygging í laxeldi. Á Vopnafirði sem er á hinum jaðrinum hefur fækkað um næstum 100 manns, en þar hefur atvinnulífið staðið nokkuð í stað síðustu 20 ár.
Hlutfallslega mest hefur fækkað í Mjóafirði, þar hefur íbúum fækkað um helming, úr 37 í 16, en hafa ber í huga að svo fámennir hópar sýna hlutfallslega stærri sveiflur og þó íbúum hafi fækkað um 21 manneskju þá er fækkun talin í fleiri einstaklingum þar þó hlutfallið sé lægra. Borgarfjörður eystri og Stöðvarfjörður hafa báðir verið skilgreindir sem brothættar byggðir og tekið þátt í verkefni Byggðastofnunar fyrir slíka staði. Þrátt fyrir að íbúum hafi fækkað á báðum stöðum á þessum 20 árum sem hér eru skoðuð, hægði á og jafnvel fjölgaði þegar verkefnin hófust á stöðunum.