Fara í efni

Breytt aldurssamsetning íbúa á Austurlandi – hvað þýðir það fyrir framtíðina?

Til baka í yfirlit
Mynd af starfamessu 2024 sem haldin var í íþróttahúsinu á Egilsstöðum.
Mynd af starfamessu 2024 sem haldin var í íþróttahúsinu á Egilsstöðum.

Það er ekki aðeins fjöldi íbúa sem hefur breyst og er ólíkur milli staða. Aldurssamsetning er einnig breytt. Breytingin er mismikil eftir aldurshópum en slíkar breytingar hafa langtímaáhrif þegar hugað er að þáttum eins og þjónustuþörf, velferð, stærð húsnæðis og vinnumarkaði.

Íbúum á aldrinum 20 til 29 ára hefur fjölgað um rúmlega 200 og íbúum milli 30 til 39 ára um tæplega 400 einstaklinga á þessum 20 árum. Þessi þróun gæti bent til þess að fleiri ungmenni kjósi að setjast að á Austurlandi eftir nám, stundi nám á Austurlandi eða fari beint út á vinnumarkaðinn. Einnig má áætla að hluti þessa fólks sé aðfluttur, fólk sem hafi flutt til svæðisins sérstaklega til að vinna á stórum vinnustöðum eins og Alcoa Fjarðaáli. Þessi þróun er jákvæð fyrir vinnumarkaðinn og efnahagslíf svæðisins, þegar aldurshópurinn sem er rétt að hefja sinn starfsferil er virkur á vinnumarkaðnum.

Aldurshópurinn 20-29 ára eignast hlutfallslega færri börn en fyrir 20 árum. Ástæður geta verið margvíslegar; en bent hefur verið á að frelsi frá staðalmyndum hefur á margan hátt aukist og val um barnlausan lífsstíl ekki lengur jafn framandi og áður. Einnig eru ytri ástæður taldar áhrifavaldur s.s. óhagstæður fasteignamarkaður. Þetta er í samræmi við þróun á landsvísu þar sem fæðingartíðni hefur lækkað á undanförnum árum. En á Austurlandi hefur fækkað um 100 einstaklinga í aldurshópnum 10 til 19 ára og börn undir 10 ára eru aðeins 12 fleiri 2024 en voru 2004.

Í hópi einstaklinga á aldrinum 40-49 ára eru 60 færri en voru 2004 Ekki er fullljós skýring á því hvers vegna er fækkun í þessum hópi. En í hópi 50 til 59 ára eru tæplega 200 fleiri og veruleg fjölgun er í hópi eldra fólks og eldri borgara. Þessi aukning endurspeglar hærri lífaldur á landsvísu og betri heilsu eldri kynslóða en hún sýnir þó einnig vaxandi þörf á aukinni heilbrigðisþjónustu.

Samantekið sýna þessar breytingar á íbúasamsetningu á Austurlandi flókna þróun þar sem bæði jákvæðar breytingar og áskoranir eru til staðar. Fjölgun í yngri aldurshópum fullorðinna er jákvæð, en fækkun barna og mikil fjölgun eldra fólks kallar á endurskoðun á þjónustu og stefnumótun til að mæta breyttum þörfum samfélagsins.