Framvinda
Í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar urðu breytingar á vatnafari Lagarfljóts og Jökulsár á Dal sem talið var að gætu haft áhrif á gróður í nágrenni fljótanna á láglendissvæðum Úthéraðs. Með virkjuninni hækkaði vatnshæð í Lagarfljóti en lækkaði í Jökulsá á Dal. Árið 2006 hófst vöktun á gróðri og grunnvatnsstöðu á Úthéraði og var markmiðið að rannsaka áhrif breytinga á vatnafari Lagarfljóts og Jökulsár á Dal á fyrrnefnda þætti. Settir voru niður rannsóknarreitir á sjö svæði meðfram fljótunum sem talin voru líklegust til að verða fyrir áhrifum, fimm svæði við Lagarfljót og tvö við Jökulsá á Dal.
Í upphafi var vöktunin unnin af Náttúrufræðistofnun Íslands en Náttúrustofa Austurlands tók við umsjón verkefnisins árið 2017. Sumarið 2017 var gróður á öllum vöktunarnarsvæðum endurmældur í samvinnu fyrrnefndra aðila.
Á vöktunarsvæðunum eru alls 34 reitir á sniðum sem liggja út frá fljótunum. Reitirnir eru staðsettir í mismunandi gróðurlendum, sumir í mjög blautum mýrastararmýrum, aðrir í þurrum fjalldrapa- og víðimóa og enn aðrir á sandflesjum. Auk gróðurmælinga hafa ýmsir rannsóknaþættir verið kannaðir í reitunum, meðal þeirra eru skráningar á beitarummerkjum og mælingar á grunnvatnsstöðu. Við úrvinnslu gagna voru einnig notaðar niðurstöður Landsvirkjunar um vatnshæð í fljótunum og grunnvatnsstöðu á sniðum út frá þeim.
Grunnvatn hefur í aðalatriðum fylgt breytingum á vatnsborði ánna (LV-2012-099). Við mat á ástandi gróðurs árið 2012 komu fram vísbendingar um gróðurbreytingar á láglendustu svæðunum (NÍ-13006). Í framhaldi af því var ákveðið að bæta við grunnvatnsmælisniði í Kílamýri í landi Húseyjar og hófust mælingar þar haustið 2013. Grunnvatnshæðin fylgir í megindráttum sömu ferlum og gengur og gerist á flatlendi við fljótin, þ.e. fylgir vatnsborði í ánni einhver hundruð metra frá strönd en lengra frá úrkomu og leysingum (Minnisblað EA, 28.01.15).
Niðurstöður gróðurmælinga sýna að breytingar hafa orðið á gróðri. Breytingarnar eru mismunandi eftir svæðum, tengjast breyttri grunnvatnsstöðu en mótast einnig að aðstæðum. Á svæðum við Lagarfljót hefur land blotnað og þekja votlendistegunda hefur aukist. Við Jökulsá á Dal bendir til að land hafi þornað að einhverju leyti og þar hefur dregið úr þekju votlendistegunda. Miðað við niðurstöður þessarar rannsóknar má ætla að gróður muni halda áfram að breytast enn um sinn.
Vöktunaráætlun og markmið
Hvað er mælt?
- Í rannsóknareitum er gróður vaktaður, m.a. heildarþekja, þekja plöntutegunda og hæð gróðurs. Einnig eru beitarummerki skráð (Áhrif framkvæmda: óbein).
- Fylgst er með grunnvatnsstöðu (Áhrif framkvæmda: óbein).
Áætlun um vöktun
Gróður verður vaktaður í rannsóknareitum og gefa niðurstöðurnar upplýsingar um breytingar á tegundasamsetningu og gróðurþekju. Gróðurmælingar fara fram á 5-10 ára fresti. Mælingar verða gerðar á grunnvatnsstöðu árlega og fylgst með rannsóknareitum.
Markmið
Rannsaka áhrif breytinga á vatnafari Lagarfljóts og Jökulsár á Dal í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar á gróður og grunnvatnsstöðu.
Mögulegar viðbragðsaðgerðir
Einungis er um vöktun að ræða.
Breytingar á vísi
Þessi vísir var upphaflega hluti af vísi sem hét Breytingar á strandlengju Héraðsflóa og var númer 29.1b. Umfjöllun um vísinn má finna undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.
Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.
Ár | Nr. | Nafn vísis |
---|---|---|
2020 | 2.6.3 | Gróður á Úthéraði |
2007 | 2.6b | Breytingar á strandlengju Héraðsflóa |
Grunnástand
Grunnástand svæðisins var kannað árið 2006 og niðurstöður aðgengilegar í skýrslunni Gróðurvöktun á Úthéraði Áhrif vatnsborðsbreytinga í Kárahnjúkavirkjun.
Forsendur fyrir vali á vísi
Í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar var reiknað með að breytingar yrðu á vatnafari Lagarfljóts og Jökulsár á Dal á Úthéraði. Gengið var út frá því að vatnshæð í Lagarfljóti myndi hækka en lækka í Jökulsá á Dal. Vegna þessara breytinga mátti ætla að svæði næst Jökulsánni myndu þorna að einhverju marki en við Lagarfljót myndi land blotna. Í tengslum við þessar breytingar hófst langtímavöktun á gróðri á þeim svæðum við Lagarfljót og Jökulsá á Dal sem líklegast þóttu til að breytast vegna tilkomu Kárahnjúkavirkjunar.
Uppfært 14.5.2020
Upphaflegar forsendur fyrir vali á vísi
Kárahnjúkavirkjun mun hafa þau áhrif að mikið mun draga úr þeim aurburði sem Jökulárnar tvær bera til sjávar og þetta getur haft áhrif á staðsetningu strandlengju Héraðsflóa og gróður nálægt ströndinni. Láglendi á Úthéraði er að stórum hluta myndað og mótað af jökulánum tveimur sem um það renna, Jökulsá á Dal og Lagarfljóti. Af þeim ber Jökulsá á Dal fram mun meira af aur og er aurburðurinn áætlaður nema um 7-8 milljónum tonna á ári. Framburður Lagarfljóts er mun minni. Megnið af þessum framburði ánna berst til sjávar. Árnar tvær hafa sameiginlegan ós við Héraðsflóa. Strönd flóans mótast af samspili framburðarins og rofkrafta sjávaröldunnar og gera má ráð fyrir að ströndin sé enn að færast utar við núverandi aðstæður.Við virkjun Jökulsár á Dal mun megnið af framburði árinnar setjast til í Hálslóni, þar sem um 6,5 – 7,0 milljónir tonna af efni sest til á ári. Eftir að framburður aurs til strandarinnar stöðvast mun núverandi jafnvægi raskast og gera má ráð fyrir að ströndin hopi. Einnig mun hugsanleg hækkun á sjávarstöðu vegna gróðurhúsaáhrifa flýta fyrir rofi strandarinnar. Samkvæmt reiknilíkönum er áætlað að rof strandarinnar verði um 280 metrar fyrstu 100 árin eftir að rekstur virkjunar hefst. Rof þetta verður ekki endilega samfellt heldur mótast af illviðrum, brimi og öðrum aðstæðum t.d. vegna hækkaðrar sjávarstöðu. Eyðing gróðurs vegna rofs á strönd er talin verða minni en sem nemur landeyðingu af völdum rofsins.
Ítarefni
LV-2018/096 - Gróðurbreytingar 2006-2017 við Lagarfljót og Jökulsá á Dal á Úthéraði
Árið 2006 hófst vöktun á gróðri og grunnvatnsstöðu á Úthéraði. Markmiðið var að rannsaka áhrif breytinga á vatnafari Lagarfljóts og Jökulsár á Dal í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar á fyrrnefnda þætti. Í upphafi var vöktunin unnin af Náttúrufræðistofnun Íslands en Náttúrustofa Austurlands tók við umsjón verkefnisins árið 2017. Niðurstöður sýna að breytingar hafa orðið á gróðri. Breytingarnar eru mismunandi eftir svæðum, tengjast breyttri grunnvatnsstöðu en mótast einnig að aðstæðum. Á svæðum við Lagarfljót hefur land blotnað og þekja votlendistegunda hefur aukist. Við Jökulsá á Dal bendir til að land hafi þornað að einhverju leyti og þar hefur dregið úr þekju votlendistegunda.
Hægt er að skoða meira ítarefni sem snýr að vísinum með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan.