Fara í efni

Framvinda

Gróður á Snæfellsöræfum og Fljótsdalsheiði hefur verið vaktaður frá árinu 2006. Markmið vöktunarinnar er að kanna langtímabreytingar á gróðri vegna hugsanlegra áhrifa Kárahnjúkavirkjunar og þá einkum Hálslóns. Rannsóknirnar fara fram í rannsóknareitum á annars vegar Snæfellsöræfum, í Kringilsárrana og á Vesturöræfum, og hins vegar á Fljótsdalsheiði.

Grunnmælingar í reitum voru gerðar á árunum 2006-2008. Endurtekin úttekt Náttúrustofu Austurlands á rannsóknareitunum fór fram á árunum 2015 í Kringilsárrana, 2016 á Fljótsdalsheiði og lauk 2017 á Vesturöræfum.

Mynd 1. Rannsóknarreitir á Snæfellsöræfum, í Kringilsárrana og Vesturöræfum, og Fljótsdalsheiði

Mynd 1. Rannsóknarreitir á Snæfellsöræfum, í Kringilsárrana og Vesturöræfum, og Fljótsdalsheiði.

Mikil gæsabeit einkenndi ásýnd gróðurs í Kringilsárrana í úttekt ársins 2015 og voru beitarummerki mun meira áberandi en í fyrri úttekt. Annars konar breytinga á gróðri varð ekki vart en Kringilsárrani er gróskumikill miðað við önnur hálendissvæði landsins og því álitlegur til beitar.

Áhrif hreindýrabeitar voru höfð í huga við gerð úttektar á Fljótsdalsheiði sumarið 2016 því samkvæmt hreindýratalningum síðustu ára var heiðin mjög vinsæl til sumarbeitar á árunum 2000-2008 en fá dýr fundust þar á árunum 2011-2016. Fléttur sem aðeins hreindýr bíta höfðu mun minni þekju í úttekt ársins 2016 en fyrri úttekt en minni breytinga varð vart meðal annarra plöntuhópa milli úttekta.

Í úttekt ársins 2017 á Vesturöræfum sáust víða ummerki um gæsa- og/eða hreindýrabeit. Litlar breytingar urðu á gróðri frá fyrri úttekt, aðrar en þær að grasþekja jókst á melasvæðum sem sáð hafði verið í á NV-hluta rannsóknarsvæðisins. Áfok af strönd Hálslóns sást á gróðri og ryk var í lofti næst lóninu athugunardaga sumarið 2017, en ekki voru sýnileg áhrif áfoks á gróður í rannsóknareitum.

Niðurstöður úttekta á gróðri árin 2015-2017 á Snæfellsöræfum og Fljótsdalsheiði benda til þess að beit sé líklega stærsti áhrifavaldur breytinga á gróðri á svæðinu og verður frekari vöktun gróðurs löguð að þeim niðurstöðum. Auk gróðurmælinga á vettvangi hefur gróðurstuðull á fyrrnefndum svæðum verið borinn saman milli nokkurra ára með aðstoð gervitunglamynda. Ekki var að sjá neinar augljósar breytingar á grósku út frá þróun gróðurstuðuls á árunum 2000-2017 en gildi stuðulsins síðustu ár tímabilsins voru þó með hæsta móti.

Sumarið 2019 var vírkörfum komið fyrir á hluta hvers rannsóknareits í Kringilsárrana og á Fljótsdalsheiði, í þeim tilgangi að friða þann hluta fyrir beit stærri beitardýra. Sumarið 2020 voru körfur einnig settar út á Vesturöræfum. Beit sauðfjár, gæsa og hreindýra er á rannsóknarsvæðinu í heild, þó mismikil sé á milli svæða, og því geta friðaðir viðmiðunarreitir af þessu tagi gefið áhugaverðar og vísindalega mikilvægar upplýsingar um ástand gróðurs og breytur á bakvið framvindu vistkerfisins.

Breytingar hafa orðið á gróðurfari í Kringilsárrana, á Vesturöræfum og Fljótsdalsheiði frá 2006, en þær eru mismunandi milli svæða. Ekki er að finna bein áhrif Hálslóns á gróðurfar svæðanna, að því er fram kemur í viðamikilli rannsókn. Niðurstöður hennar liggja nú fyrir í ritrýndri grein.

Uppfært: 6. júní 2024
Heimild: Landsvirkjun (2024) og Náttúrustofa Austurland (2024).

Vöktunaráætlun og markmið

Gróðurbreytingar geta orðið af ýmsum ástæðum og því mikilvægt að vöktun taki mið af því. Dæmi um áhrifaþætti eru:

  1. Loftlagsbreytingar
  2. Breytt beitarálag.
    1. Minnkandi sauðfjárbeit.
    2. Tilfærsla á beitarálagi hreindýra vegna beitarsvæða sem glötuðust undir Hálslón.
    3. Aukin heiðagæsabeit vegna fjölgunar í stofni.
  3. Áfok úr Hálslóni.
Hvað er mælt?
  1. Í rannsóknareitum er gróður vaktaður, m.a. heildarþekja, þekja plöntutegunda og hæð gróðurs. (Áhrif framkvæmda: óbein).
  2. Gróðurstuðull (NDVI). (Áhrif framkvæmda: óbein).
Áætlun um vöktun

Gróður verður vaktaður í rannsóknareitum á svæðinu og niðurstöðurnar gefa upplýsingar um breytingar á tegundasamsetningu og gróðurþekju. Jafnframt verður fjarkönnun (gervitunglamyndir) nýtt til að vakta breytingar á stærri skala og fylgjast með breytingum á gróskustuðli (NDVI).

Gróðurmælingar fara fram á 10-15 ára fresti og rannsóknareitir verða heimsóttir á um fimm ára fresti. Þá er farið yfir merkingar og litið eftir augljósum breytingum.

Mælikvarðar um breytingar á gróðurfari verða þróaðir í samráði við sérfræðinga.

Markmið

Kanna hvaða breytingar verða á gróðurfari á svæðum undir áhrifum af Kárahnjúkavirkjun og að hve miklu leyti væri hægt að tengja þær virkjuninni.

Mögulegar viðbragðsaðgerðir

Landsvirkjun stendur fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir áfok og stöðva rof.

Breytingar á vísi

Á ársfundi 2017 var samþykkt breyting á vísi.


Þessi vísir var upphaflega númer 26.1 og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.

Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.

Tafla 1. Breytingar á númeri og nafni vísis.
Ár Nr. Nafn vísis
2020 2.6.2 Gróður á Snæfellsöræfum og Fljótsdalsheiði
2007 2.28 Gróður á Vesturöræfum

Grunnástand

Áður en undirbúningur vegna Kárahnjúkavirkjunar fór fram höfðu verið gerðar gróðurathuganir (OS81002/VOD02) á svæðinu og í tengslum við rannsóknir á hreindýrum voru gerðar gróðurmælingar á svæðum sem dýrin velja umfram önnur (OS-83073/VOD-07). Sumarið 2000 fóru jafnframt af stað rannsóknir á gróðri sem höfðu það markmið að flokka vistgerðir á svæðinu (NÍ-01004/LV-2001/020). Til að fá upplýsingar um grunnástand á svæðinu u.þ.b. sem hluti þess fór undir Hálslón var ástand gróðurs kannað á árunum 2006-2008. Annars vegar var þekja og gróska (gróðurstuðull NDVI) könnuð með aðstoð gervitunglamynda árin 2002, 2007 og 2008. Hins vegar voru rannsóknareitir settir út á þremur svæðum á Snæfellsöræfum og Fljótsdalsheiði og gefa þeir möguleika á endurteknum mælingum sem geta veitt upplýsingar um gróðurbreytingar. Mikilvægur liður í skilgreiningu á grunnástandi er að átta sig á hugsanlegum undirliggjandi breytingum sem gætu hafa orðið áður en framkvæmdir hófust, hvort sem þær breytingar tengjast veðurfari eða breyttu beitarálagi.

Forsendur fyrir vali á vísi

Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á gróður verða mest á hálendinu á Vesturöræfum og Kringilsárrana. Vesturöræfi er verðmætt svæði þar sem svo mikil gróska á landi svo hátt yfir sjó er fremur sjaldgæf og einnig vegna þess að dýr (sauðfé, gæsir og hreindýr) á Kringilsárrana nýta svæðið til beitar. Bein skerðing gróðurs vegna Hálslóns snertir Vesturöræfi og Kringilsárrana en einnig gæti rof á strönd Hálslóns leitt til þess að áfok berist inn á gróðurlendin næst lóninu. Líklegt er talið að skerðing beitilanda á Vesturöræfum muni auka álag á Fljótsdalsheiði og því er hún hluti af þeim svæðum sem rannsóknir og vöktun nær til.

Landsvirkjun mun standa fyrir umfangsmiklum varnaraðgerðum til að reyna að koma í veg fyrir áfok. Mikilvægt er að fylgjast með gróðri á svæðinu, ef í ljós kæmi að varnaraðgerðirnar komi ekki að fullu í veg fyrir áfokið, þannig að hægt sé að grípa til aðgerða ef gróðri fer að hnigna. Auk beinna varnaraðgerða hafa farið fram rannsóknir á leiðum til að styrkja gróður til að standast áfok og tilraunir til að bregðast við áfoki, t.d. með sáningu melfræs.

Upphafleg vöktunaráætlun

Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á gróður verða mest á hálendinu á Vesturöræfum. Vesturöræfi er verðmætt svæði þar sem gróður á landi svo hátt yfir sjó er fremur sjaldgæfur og einnig vegna þess að dýr (sauðfé, gæsir og hreindýr) nýta svæðið til beitar. Hálslón mun skerða gróður á Vesturöræfum en einnig gæti rof á strönd Hálslóns leitt til þess að áfok berist inn á gróðurlendið sem eftir verður næst lóninu. Landsvirkjun mun standa fyrir umfangsmiklum varnaraðgerðum til að reyna að koma í veg
fyrir áfok. Mikilvægt er að fylgjast með gróðri á svæðinu, ef í ljós kæmi að varnaraðgerðirnar komi ekki að fullu í veg fyrir áfokið, þannig að hægt sé að grípa til aðgerða ef gróðri fer að hnigna. Þegar eru hafnar umfangsmiklar áburðar- og gróðurrannsóknir innan Landbúnaðarháskóla Íslands (áður RALA). Markmið þessara rannsókna er að finna markvissar leiðir til að styrkja gróðurinn, reynist þess þörf.

Úr áfangaskýrslu um vísa og grunnástand frá apríl 2005

Ítarefni

LV-2018-095 Gróðurvöktun á Vesturöræfum

LV-2018-095 Gróðurvöktun á Vesturöræfum

2018

Náttúrustofa Austurlands hefur vaktað gróðurfar á Snæfellsöræfum og Fljótsdalsheiði og hófst vöktunin árið 2006. Markmið rannsóknanna er að kanna langtímabreytingar á gróðri vegna hugsanlegra áhrifa Kárahnjúkavirkjunar og þá einkum Hálslóns.
Á Snæfellsöræfum fóru rannsóknir fram í Kringilsárrana og á Vesturöræfum. Niðurstöður mælinga á Vesturöræfum sýndu litlar breytingar á gróðri á milli áranna 2007 og 2017. Heildargróðurþekja breyttist lítið en þó mátti sjá mun á þekju víðitegunda. Ástand gróðurs benti ekki til aukins beitarálags og gróðurstuðull gaf til kynna meiri grósku á árunum 2014-2017 en árin á undan.

Hægt er að skoða meira ítarefni sem snýr að vísinum með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan.