Fara í efni

Framvinda

Ufsarlón og Jökulsárgöng voru tekin í gagnið haustið 2008. Fylling Ufsarlóns hófst 11. september 2008 og spjaldloki Jökulsárganga var opnaður 16. október 2008 og hófst þar með nýting á vatni frá Hraunasvæðinu í Fljótsdalsstöð. Vinna við lokafrágang yfirfallsrennu Ufsarlóns fór fram sumarið 2009 og stóð fram í ágúst og 10. ágúst 2009 og fram í byrjun september sama ár var unnið í endurbótum á botnrásarskurði Ufsarlóns. Lok framkvæmda á svæðinu var síðan í september 2010.

Í meðalárum verður náttúrulegt rennsli í fossum í Jökulsá í Fljótsdal frá 10. ágúst til 1. október.

Á tímabilinu frá miðjum júní til byrjun október 2022, var miðlað rennsli úr Ufsarlóni í farveg Jökulsár í Fljótsdal. Vatnsbúskapur á vatnasviðið Fljótsdalsstöðvar var undir meðallagi árið 2022. Á línuritinu má sjá rennsli við Hól í samanburði við meðalrennsli Jökulsár í Fljótsdal.

Tafla 1. Fjöldi daga með miðluðu rennsli í fossum.
Ár Opnað fyrir rennsli (dags) Fjöldi daga með miðluðu rennsli Lokað fyrir rennsli (dags.)
Meðalár 10.ágúst 52 1. október
2010 16. júlí 67 21. september
2011 18. ágúst 58 15. október
2012 31. maí 129 7. október
2013 18. júlí 59 15. september
2014 13. júní 104 25. september
2015 - 0 -
2016 16. júní 124 18. október
2017 26. maí 169 11. nóvember
2018 28. maí 116 21. september
2019 11. júní 131 20. október
2020 20. júní 92 20. september
2021 30. júní 93 1. október
2022 17. júní 116 11. október

Hægt er að fylgjast með rennsli árinnar á línuriti á heimasíðu Landsvirkjunar. 

Mynd 1. Sumarrennsli Jökulsár í Fljótsdal 2022

  • Rennsli við Hrakstrandarfoss: Línur sýna rennsli um yfirfall og botnrás Ufsarlóns rétt ofan við Hrakstrandarfoss sem er efsti fossinn í röð fossa í Fljótsdal.
  • Rennsli við Hól: Rennslismælirinn er ofan við Fljótsdalsstöð áður en Jökulsá í Fljótsdal sameinast útfalli aflstöðvarinnar.
  • Meðalrennsli: Línurnar sýna áætlað meðalrennsli við Hrakstrandarfoss.
  • Lágmarks- og hámarksrennsli: Skyggði flöturinn í bakgrunni sýnir áætlað hámarks- og lágmarksrennsli við Hrakstrandarfoss.

Meðalrennslið ásamt lágmarks- og hámarksrennslinu er samkvæmt gögnum frá 1958-2014.

Í dag má helst búast við rennsli við Hrakstrandarfoss seinni hluta sumars þegar fylling Hálslóns hefur verið tryggð. Þó er ekki útilokað að vatn renni framhjá fyrri part sumars þegar leysingar eru mjög miklar. Hægt er að skoða yfirlitsmyndir yfir sumarrennsli 2010 - 2021 með því að smella hér.

Mynd 2. Staðsetning mælistöðva við Jökulsá í Fljótsdal.

Mynd 2. Staðsetning mælistöðva við Jökulsá í Fljótsdal.

Uppfært: 1. mars 2023
Heimild: Landsvirkjun 2023

Vöktunaráætlun og markmið

Hvað er mælt ?

Fjöldi daga með miðluðu rennsli í fossum. (Áhrif framkvæmda: óbein).

Áætlun um vöktun

Hluti af reglulegum rekstri virkjunar. Upplýsingum er safnað jafnóðum.

Markmið

Í meðalárum verður náttúrulegt rennsli í fossum í Jökulsá í Fljótsdal frá 10. ágúst til 1. október.

Í úrskurði umhverfisráðherra 20. desember 2001, setur ráðherra fram 20 skilyrði fyrir starfsemi Kárahnjúkavirkjunar. Skilyrði 10 segir að framkvæmdaraðili skuli nýta yfirfallsvatn á skipulegan hátt á ferðamannatíma og leitist við að ná meðalrennsli í farveg Jökulsár í Fljótsdal og Kelduár í júlí og ágúst í góðum vatnsárum. Í lakari vatnsárum skal framkvæmdaraðili leggja áherslu á að hafa rennsli á ferðamannatíma í farvegi Jökulsár í Fljótsdal og síðan í Kelduá eftir því sem yfirfallsvatn dugar til.

Mögulegar viðbragðsaðgerðir

Leitast er við að hafa rennsli á fossum eins eðlilegt og aðstæður leyfa.

Uppfært: 22. júlí 2016

Breytingar á vísi

Á ársfundi verkefnisins 6. maí 2015 var eftirfarandi breyting samþykkt:

Tafla 2. Breytingar á vísi samþykktar á ársfundi 2015.
Texti fyrir breytingu Texti eftir breytingu

Hvað er mælt?

Fjöldi daga með náttúrulegu rennsli í fossum

Hvað er mælt?

Fjöldi daga með miðluðu rennsli í fossum

Rökstuðningur breytingar: Í vöktunaráætlun segir að mældur sé fjöldi daga með náttúrulegu rennsli í fossum. Í raun er öllu rennsli stjórnað og því ekkert til sem heitir náttúrulegt rennsli í fossum. Eðlilegra er að tala um miðlað rennsli en náttúrulegt þar sem öllu rennsli er stýrt.


Þessi vísir var upphaflega númer 30.1 . Þá hét hann Tap fossa og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.

Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.

Tafla 3. Breytingar á númeri og nafni vísis.
Ár Nr. Nafn vísis
2020 2.1.4 Rennsli fossa
2007 2.3 Rennsli fossa

Grunnástand

Landsvirkjun hefur gefið út skýrslu um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á fossa (LV - 2008/089) og er stuðst við hana hér þegar grunnástand er metið.

Almennt er foss skilgreindur þannig að vatnið í honum fellur lóðrétt fram af brík, sem yfirleitt er úr bergi. Í flúð rennur vatnið eftir hallandi farvegi eða stöllum sem eru það lágir að vatnið fellur ekki lóðrétt. Í skýrslunni er ekki gerður munur á foss eða flúð og notað orðið foss um hvoru tveggja. Það er misjafnt hversu vel er búið að kanna fossa í þeim ám sem hér um ræðir. Kelduá ásamt Innri og Ytri Sauðá eru nokkuð vel kannaðar og búið að ljósmynda alla fossa og fjölmargar flúðir upp í ákveðna landhæð sem kemur fram í skýrslunni.

Í hinum ánum hafa fossar ekki verið taldir og skráðir með jafn ítarlegum hætti, en stuðst við ábendingar kunnugra manna. Í engri ánni hafa fossar verðið kannaðir alveg að jökulbrún. Með auðveldari aðkomu að þessum ám vegna þeirra samgöngubóta sem átt hafa sér stað á svæðinu er léttara en áður að afla upplýsinga um fossa og flúðir á þessu svæði.

Í upphaflegum virkjunaráformum Kárahnjúkavirkjunar var gert ráð fyrir að eftirfarandi ár væru virkjaðar: Jökulsá á Dal, hliðarár sem falla í Hálslón, Grjótá á Vesturöræfum, Þuríðarstaðardalsá, Hölkná, Laugará, Bessastaðaá, Jökulsá í Fljótsdal, Hafursá, Kelduá, Grjótá á Hraunum, Innri Sauðá , Ytri Sauðá, Fellsá og Sultarranaá.

Í úrskurði umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar var umfang Kárahnjúkavirkjunar minnkað þar sem horfið var frá því að virkja Grjótá á Vesturöræfum, Þuríðarstaðardalsá, Hölkná, Laugará, Bessastaðaá, Hafursá, Fellsá og Sultarranaá.

Í október 2008 ákvað stjórn Landsvirkjun að fresta virkjun Ytri og Innri Sauðá um óákveðinn tíma. Upplýsingar í neðangreindri töflu eru fengnar úr áður nefndri skýrslu (LV-2008/089). Í töflunni eru taldar allar ár sem átti að virkja samkvæmt upphaflegum virkjunaráformum. Með fjölda fossa er átt við þá fossa sem verða eða hefðu getað orðið fyrir áhrifum miðað við upphafleg virkjunaráhrif.

Tafla 4. Allar ár sem átti að virkja samkvæmt upphaflegum virkjunaráformum.
Árheiti Fjöldi fossa Virkjunaráform Athugasemdir
Jökulsá á Dal 1 Áin nú virkjuð Einn foss verður til við virkjun árinnar
Hliðarár sem falla í Hálslón 6 Áin nú virkjuð Fossar hverfa
Jökulsá í Fljótsdal 20 Áin nú virkjuð Fossar hærri en 2m upp að landhæð 626 m
Kelduá 33 Áin nú virkjuð Allir fossar og flúðir upp í landhæð 620 m
Grjótá á Hraunum 3 Áin nú virkjuð Myndir vantar í skýrslu
Innri Sauðá 5 Virkjun árinnar frestað Myndir af tveimur fossum í skýrslu
Ytri Sauðá 11 Virkjun árinnar frestað Allir fossar og flúðir upp að landhæð 691 m
Grjótá á Vesturöræfum 1 Úrskurður umhverfisráðherra: Áin ekki virkjuð Frekari könnun æskileg
Þuríðarstaðardalsá ? Úrskurður umhverfisráðherra: Áin ekki virkjuð Frekari könnun æskileg
Hölkná 1 Úrskurður umhverfisráðherra: Áin ekki virkjuð Frekari könnun æskileg
Laugará 2 Úrskurður umhverfisráðherra: Áin ekki virkjuð Frekari könnun æskileg
Bessastaðaá 4 Úrskurður umhverfisráðherra: Áin ekki virkjuð Frekari könnun æskileg
Hafursá 1 Úrskurður umhverfisráðherra: Áin ekki virkjuð Frekari könnun æskileg
Fellsá 2 Úrskurður umhverfisráðherra: Áin ekki virkjuð Frekari könnun æskileg
Sultarranaá 1 Úrskurður umhverfisráðherra: Áin ekki virkjuð Frekari könnun æskileg

Samkvæmt meðfylgjandi töflu hefur Kárahnjúkavirkjun nú áhrif á að minnsta kosti 63 fossa. Sjö fossar hverfa, en einn foss verður til. Rennsli í 56 fossum minnkar stóran hluta ársins. Virkjun tveggja áa er frestað en í þeim eru að minnsta kosti 16 fossar.

Horfið hefur verið frá virkjunaráformum 7 áa. (Grjótá og Þuríðarstaðardalsá eru nöfn á sömu ánni. Efri hluti árinnar heitir Grjótá, en neðri hlutinn hennar heitir Þuríðarstaðardalsá). Í þessum ám eru að minnsta kosti 12 fossar. Í ám sem átti að virkja samkvæmt upphaflegum virkjunaráformum Kárahnjúkavirkjunar eru að lágmarki 91 foss.

Forsendur fyrir vali á vísi

Í ám á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar er fjöldi fossa sem verða fyrir áhrifum vegna virkjunarinnar. Í Jökulsá í Fljótsdal er fjöldi fossa þar sem áin fellur um 600 metra á 30 km kafla frá Eyjabökkum að Norðurdal. Má þar nefna Eyjabakkafoss, Tungufoss, Kirkjufoss, Faxa og Gjögurfossa. Á 20 km kafla frá Eyjabökkum að Kleif í Fljótsdal eru 15 fossar sem eru yfir 30 metra háir. Einnig eru fossar í Kelduá og öðrum ám á Hraunum sem vatni verður veitt frá til virkjunarinnar. Í Jökulsá á Dal eru engir fossar en hins vegar eru fossar í ám sem renna í hana, svo sem Sauðárfoss í Sauðá og Kringilsárfoss (oft nefndur Töfrafoss) í Kringilsá.

Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á fossa eru margs konar. Sumir þeirra, eins og til dæmis Sauðárfoss og Kringilsárfoss, munu hverfa undir lón þegar Jökulsá á Dal verður stífluð. Aðrir fossar munu breytast vegna þess að rennsli í þeim minnkar vegna miðlunar á vatni. Þetta á við um flesta fossa í Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá. Þeir fossar verða að jafnaði vatnslitlir á meðan verið er að safna í uppistöðulón. Eftir að Hálslón fyllist (fyrir miðjan ágúst í meðalári) verður rekstri virkjunarinnar hins vegar stýrt þannig að náttúrulegt rennsli verður í fossum í Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá.

Úr áfangaskýrslu um vísa og grunnástand frá apríl 2005

Ítarefni

Vísir 2.1.4 - Sumarrennsli Jökulsár í Fljótsdal 2010-2021

Vísir 2.1.4 - Sumarrennsli Jökulsár í Fljótsdal 2010-2021

2023

Samantekt á mælingum á sumarrennsli Jökulsár í Fljótsdal 2010-2021

Árið 2008 var gefin út skýrsla um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á fossa. Þar má sjá fróðlegar upplýsingar ásamt fjölmörgum fallegum myndum af fossum sem bæði hafa horfið af sjónarviði og öðrum sem fengu að halda sér.