Fara í efni

Framvinda

Fjöldi heiðagæsapara í völdum byggðum á vatnasviðum Jökulsánna á Dal og í Fljótsdal

Heiðagæsum hefur fjölgað ört undanfarna áratugi. Þessi þróun hefur ekki síst sett mark sitt á Fljótsdalshérað og heiðarlöndin þar inn af. Þrátt fyrir skerðingu beitilands og að 531 hreiðurstæði hafi horfið með tilkomu Hálslóns hefur heiðagæs fjölgað á svæðinu, líkt og víða annars staðar á landinu (sjá töflu í grunnástand). Hreiðrum hefur fjölgað frá 1981, bæði í nánasta nágrenni Hálslóns (mynd 1), með Jöklu á Efra Jökuldal, í Hnefilsdal (mynd 2) og Snæfells- og Brúaröræfum (mynd 3). Þessi þróun gefur til kynna að skortur á hreiðurstæðum hafi tæplega staðið heiðagæsinni fyrir þrifum.

Samkvæmt talningum á heiðagæsahreiðrum á sniðum á Vesturöræfum á tímabilinu 2008-2012 hafa verið miklar sveiflur í fjölda hreiðra sl. áratug. Meðalþéttleiki hreiðra á km² hefur verið á bilinu 9-37 hreiður. Mismunandi þéttleiki virðist einkum stýrast vorhretum og snjóþungum vorum. Árið 2011 voraði seint með hreti síðari hluta maímánaðar og fækkaði hreiðrum það ár um ríflega 60%. Þegar svona árar munar meira um afrán. Slík afföll eru vel þekkt í gæsavörpum. Strax næsta ár hafði heiðagæsin aftur náð sér á strik, og enn frekar 2013 og hreiðrum fjölgað í samræmi við þróunina fyrir árið 2011. Vorin 2014-2016 voru aftur snjóþung og varp dróst saman. Í kjölfarið fylgdi aftur aukið varp (mynd 1).

Talningar hafa ekki verið eins tíðar í Kringilsárrana vestan Hálslóns eins og á Vesturöræfum en niðurstöður þriggja talninga 2000, 2008 og 2017 leiddu í ljós að hreiðrum hafði fjölgað þar úr 400 árið 2000 í rúm 2000 hreiður árið 2017 og þéttleiki aukist að sama skapi úr um 20 í 70 hreiður á km² (mynd 1).

 
Sustainability.is

Mynd 1. Niðurstöður talninga á hreiðrum í nágrenni Hálslóns 1981-2022. Meðalþéttleiki hreiðra á ferkílómetra á öllum sniðum í Kringilsárrana frá 2000-2017 og á Vesturöræfum frá 2008-2022. Talningar úr Hálsi eru frá árunum 1981-2007, en eftir 2007 hvarf varpsvæði í Hálsi undir Hálslón og gæsirnar færðu sig upp á hásléttu Vesturöræfa. Tölur frá 1981 og 1987 og 2000 byggja á upplýsingum úr Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Skarphéðinn G. Þórisson 2001. Þar var gefinn upp heildarfjöldi hreiðra sem færu undir Hálslón og er þéttleikinn sem hér er sýndur reiknaður út frá því. Breytilegt er hversu mikið af sniðum var tekið ár hvert og hvernig þau dreifast innan Vesturöræfa og Kringilsárrana. Óvenju lítið snið var gengið á Vesturöræfum vegna tíðarfars árið 2014. Ekkert snið var gengið 2020 og árið 2021 var tíðarfar ekki hagstætt til talninga.

Varp jókst jafnt og þétt á Jökuldal og hliðardölum hans Hnefilsdal og Húsárdal frá 2000 til 2018, þegar þar var talið síðast (mynd 2). Mest varð aukningin í byggðinni á milli Steinshlaups og Merkis þar sem 504 hreiður voru talin árið 2000 en árið 2014 hafði fjöldi hreiðra ríflega þrefaldast og þau orðin 1788. Einnig var mikil aukning í byggðinni í Hnefilsdal þar sem 407 hreiður voru talin árið 2000 en árið 2018 voru þau orðin 1285. Hlutfallslega mesta aukningin var þó í byggð á milli Skjöldólfsstaða (Gilsár) og Sellands (Brúaráss) þar sem eitt hreiður fannst árið 2001, en árið 2015 voru þau 390. Minnsta aukningin virðist hafa orðið í byggðinni í Húsárdal þar sem 304 hreiður voru talin árið 2010, en 326 árið 2018 (mynd 2).

 
Sjálfbærni.is

Mynd 2. Heiðagæsavörp á Jökuldal og í Hnefilsdal 1981-2018 auk Húsárdals 2010, 2015 og 2018. Árið 2014 var ekki talið innan við Þverá í Hnefilsdal. Ekki hefur verið talið á þessum svæðum síðan 2018.

Mikill vöxtur hefur líka orðið líka á Snæfells- og Brúaröræfum (mynd 3). Til samanburðar voru talningar frá þessum svæðum frá árunum 1981 og 1983. Aukning var mismikil eftir byggðum og fjöldinn sveiflukenndur eftir árum. Þannig virtist sem lítil fjölgun hefði orðið í Hafrahvömmum allt frá árinu 1981 þegar þar fundust 169 hreiður. Árið 2016 voru hreiðrin 190, en flest voru þau 296 árið 2008. Þá varð nokkur fækkun hreiðra á milli talninga í Laugarvalladal og Sauðárdal frá 2008 þegar þar voru 183 hreiður til 2016 þegar hreiður voru 126.

 
Sjálfbærni.is

Mynd 3. Hreiðurfjöldi í varpbyggðum á Snæfells-og Brúaröræfum frá 1981 til 2020: í Hafrahvömmum, í Hrafnkelsdal og afdölum hans Glúmsstaða­dal og Þuríðarstaðadal og í Laugarvalladal og Sauðárdal. Árin 2018 og
2019 var ekki talið í Hrafnkelsdal en þess í stað í afdölum hans. Ekki var talið árin 2020 og 2021. Árið 2014 var ekki talið innan við Þverá í Hnefilsdal. Tölur fyrir 2005 byggja á Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Skarphéðinn G. Þórisson 2001.

Mynd 2. Heiðagæsahreiður.

Mynd 4. Heiðagæsahreiður. Mynd fengin frá Náttúrustofu Austurlands.

Mynd 4. Heiðagæsaungar
Mynd 5. Heiðagæsaungar. Mynd fengin frá Náttúrustofu Austurlands.

Fjöldi heiðagæsa í sárum á Snæfellsöræfum

Heiðagæsum í sárum á Eyjabökkum fækkaði frá 1991, þegar fuglar þar voru í hámarki um 13.000 fuglar, til 2008 og voru þá aðeins um 2.000 fuglar. Frá 2008 fjölgaði þeim aftur og náðu hámarki tæplega 9.700 fuglar árið 2016 en fækkaði eftir það til 2020. Árið 2021 fjölgaði á ný og voru þá taldir 8.600 fuglar en fækkaði lítillega árið eftir (mynd 6). Ekki var talið árið 2023 vegna flugslyss.

 
Sjálfbærni.is

Mynd 6. Fjöldi heiðagæsa í sárum á Eyjabökkum 1979–2022 samkvæmt flugtalningum Skarphéðins G. Þórissonar 1979-2004 og Náttúrustofu Austurlands frá 2005-2022. Ekki var talið árið 2023 vegna flugslyss.

Mynd 7. Eyjabakkar. Mynd fengin frá Náttúrustofu Austurlands.
Mynd 7. Eyjabakkar. Mynd fengin frá Náttúrustofu Austurlands.

Byrjað var að fylgjast með nýtingu gæsa í sárum á Hálslóni, vestan Snæfells frá árinu 2008. Ekki var talið 2009 og 2010 en frá 2011 til 2022 var talið árlega. Mestur fjöldi gæsa á Hálslóni frá 2008 til 2022 var fyrsta árið sem talið var (2008) um 2000 gæsir og ungar nokkuð fleiri. Meirihluti gæsanna var við austur­ströndina og því að öllum líkindum komnar af Vesturöræfum. Eftir það sveiflaðist fjöldinn töluvert en þó fækkaði frekar á lóninu, bæði austan og vestanvert.

 
Sjálfbærni.is

Mynd 8. Heiðagæsir í sárum á Eyjabökkum 2007-2022 og hlutfall 12-14 mánaða gamalla gæsa þar af, árin 2009-2011, 2015-2019 og 2022. Bláar súlur sýna árin þar sem hlutföll voru ekki skoðuð. Ungar frá líðandi ári eru ekki meðtaldir. Ekki var talið árin 2020 og 2021. Ekki var hægt að reikna hlutföll fyrir 2023 þar sem engar flugtalningar fóru fram 2023 og því fjöldi gæsa ekki þekktur það ár. 

Hlutfall ársgamalla heiðagæsa í fellihópum gefur til kynna hvernig varp hafi tekist hjá tegundinni árið áður. Þetta hlutfall fæst með að skoða dvergvængsfjaðrir sem safnað hefur verið á Eyjabökkum frá 2009 til 2023 með hléum frá 2012 til 2014 og 2020-2021 (mynd 9). Hlutfall ársgamalla gæsa hefur verið nokkuð stöðugt á þessu tímabili, eða að meðaltali um 29%, hæst árið 2011 (44%) og lægst árið 2019 (21%). 

 
Highcharts.com
Mynd 9. Hlutfall fjaðra ársgamalla heiðagæsa í felli á Eyjabakkasvæðinu af öllum fjöðrum sem safnað hefur verið frá 2009 til 2023 með einhverjum hléum.

Uppfært: 15. mars 2024
Heimild: Náttúrustofa Austurlands (2024).

Vöktunaráætlun og markmið

Hvað er mælt?
  • Fjöldi heiðagæsapara í völdum byggðum á vatnasviðum Jökulsánna á Dal og í Fljótsdal. (Áhrif framkvæmda: óbein).
  • Fjöldi (geldra) heiðagæsa í sárum á Snæfellsöræfum. (Áhrif framkvæmda: óbein).

Vöktunaráætlun
  • Talning hreiðra (fjöldi heiðagæsapara í völdum byggðum): Árlega er talið á svæðum við Hálslón, þ.e. í Hálsi og á Vesturöræfum. Að öðru leyti er talið til skiptis á nokkrum samanburðarsvæðum, þ.e. í Hrafnkelsdal og afdölum og svæðum neðar við Jökuldal.
  • Talning fugla (geldra heiðagæsa í sárum): Haldið verður áfram árlegum talningum ófleygra gæsa á Eyjabökkum og við Hálslón en á nokkurra ára fresti að öðru leyti á Snæfellsöræfum.
Markmið/væntingar
  • Varpfuglum muni ekki fækka um meira en 600 pör.
  • Gæsum í sárum á Snæfellsöræfum muni ekki fækka miðað við fjölda sem talinn var árið 2005.

Breytingar á vísi

Þessi vísir var upphaflega númer 24.1. Þá hét hann Heiðagæsir og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.

Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.

Tafla 1. Breytingar á númeri og nafni vísis.
Ár Nr. Nafn vísis
2020 2.5.2 Heiðagæsir
2007 2.21 Heiðagæsir

Grunnástand

Á árunum 1980–2000 nær fjórfaldaðist fjöldi heiðagæsapara á Austurlandi. Aukningin hefur að mestu leyti verið samstiga örum vexti í íslensk-grænlenska heiðagæsastofninum.

Varp heiðagæsa á Austurlandi var áætlað 2000 hreiður 1981, 4000 hreiður 1988 og um 7300 hreiður árið 2000. Þetta er 15-20% varppara í íslensk-grænlenska heiðagæsastofninum en til hans teljast um 85% allra heiðagæsa í heiminum.

Á árinu 2005 verpti tæplega helmingur heiðagæsa á Austurlandi (3300 pör) í rúmlega 40 byggðum á vatnasviði Jökulsár á Dal. Stærstu byggðirnar voru í Kringilsárrana (300–400 pör), meðfram Jökulsá ofan Sandfells, þ.e. á því svæði sem fór undir Hálslón (330 pör), í Hafrahvammagljúfrum (206), milli Hölknár og Merkis (435), við Hneflu (407) og í Glúmsstaðadal (293). Á vatnasviði Jökulsár í Fljótsdal er stærsta byggðin milli Kleifa og Laugarár (96 pör).

Sumar gæsabyggðir á vatnasviði Jökulsár á Dal höfðu nánast staðið í stað á 20 ára tímabili eða vaxið afar hægt (innan við 3% á ári). Aðrar byggðir höfðu hins vegar vaxið hratt, jafnvel um 10–15% á ári. Í heild fylgdi vöxtur heiðagæsavarps á Austurlandi þróun íslensk-grænlenska heiðagæsastofnsins sem óx hratt milli 1980 og 1995.

Tafla 2. Listi yfir heiðagæsabyggðir sem talið var að myndu hverfa eða raskast vegna Kárahnjúkavirkjunar
Byggð Fjöldi varppara Hreiður sem hverfa
Sauðá, Vesturöræfum 96 66
Kringilsárrani 300 50
Jökulsá ofan Sandfells 330 330
Sauðá, Brúardölum 50 40
Jökulsá neðan Eyjabakka 5 5
Glúmsstaðadalur 193 40
ALLS 994 531

Uppfært: 2. apríl 2012
Heimild:
 Náttúrufræðistofnun Íslands

Forsendur fyrir vali á vísi

Reynslan af vöktun varpstofnsins til þessa hefur verið stöðug fjölgun og landnám á nýjum svæðum. Vöktunin hefur tekið mið af þessari þróun, þannig að ákveðnar talningar eru endurteknar árlega (grannsvæði Hálslóns) en önnur svæði eru tekin fyrir til skiptis.

Dreifing geldfugla í sárum er mun flóknara fyrirbæri. Til eru gögn frá Eyjabökkum til nokkurra áratuga og einstaka talningar víðar. Með tilkomu Hálslóns sköpuðust skilyrði fyrir gæsir í fjaðrafelli við lónið. Talningar á gæsum við Hálslón eru nýjar af nálinni og fara fram um leið og talið er á Eyjabökkum.

Uppfært: 2013


Upprunalegar forsendur fyrir vali á vísi

Talið er að Kárahnjúkavirkjun hafi talsverð áhrif á heiðagæsir. Áhrifin eru í fyrsta lagi tímabundin vegna byggingarframkvæmda og í öðru lagi varanleg. Annars vegar vegna þess að hluti varp- og beitilanda heiðagæsa fór undir Hálslón, og hins vegar verða gæsirnar fyrir meiri truflun vegna byggingaframkvæmda á svæðinu og einnig er betra aðgengi að afskekktum lendum heiðagæsarinnar.

Á áhrifasvæði virkjunar á Snæfellsöræfum verptu um 2200 pör árið 2000. Varpsvæði 500-600 heiðagæsapara fór forgörðum við Kárahnjúkavirkjun, en það var ríflega þriðjungur heiðagæsahreiðra á Brúardölum og Vesturöræfum (með afdölum Hrafnkelsdals). Þetta samsvarar um 7% para á Austurlandi og 1-2% para í íslensk-grænlenska stofninum. Landið sem fór undir Hálslón telst hafa alþjóðlega þýðingu fyrir heiðagæsir samkvæmt viðmiðunum Ramsarsamningsins og Alþjóða fuglaverndarráðsins. Beitiland heiðagæsa hefur raskast og aukin umferð í kjölfar framkvæmda og meðan á þeim stóð rýrir lífsskilyrði gæsa á svæðinu.

Hálslón og önnur miðlunarlón sem mynduðust með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar eru ekki talin raska fellistöðvum geldgæsa.

Úr áfangaskýrslu um vísa og grunnástand frá apríl 2005

Ítarefni

LV-2022/007 - Fuglarannsóknir á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar 2004-2020

LV-2022/007 - Fuglarannsóknir á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar 2004-2020

2022

Skýrslan segir frá fuglarannsóknum sem kveðið var á um í úrskurði ráðherra vegna byggingar Fljótsdalsstöðvar. Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á fuglalíf eru ekki endilega augljós og aðgreinanleg frá öðrum áhrifum s.s. tíðarfari tengt náttúrulegum langtíma- og skammtímasveiflum, sem hafa ýmis afleidd áhrif á fuglalíf. Heiðagæsum hefur fjölgað á tímabilinu þrátt fyrir að hafa misst varpsvæði undir Hálslón.

Hægt er að skoða meira ítarefni sem snýr að vísinum með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan.

Árið 2021 kom út skýrsla þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum rannsókna á fuglum á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar tímabilið 2004-2020.

Halldór W. Stefánsson, Skarphéðinn G. Þórisson og Kristín Ágústsdóttir (2021). Fuglarannsóknir á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar 2004-2020. LV -2022-007 (NA-210214).

Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Skarphéðinn G. Þórisson (2001). Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á heiðagæsir. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-01003.