Framvinda
Heilbrigðiseftirlit fer fram á grunni starfsleyfis Fljótsdalsstöðvar, laga og reglugerða sem um starfsemina gilda. Skoðuð eru þau frávik þar sem ekki tekst að uppfylla þær kröfur sem eru í starfsleyfi.
Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi Alcoa Fjarðaáls í samræmi við ákvæði laga og reglugerða um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit skilgreina tvenns konar alvarleika mála við skoðun í reglubundnu eftirliti:
- Í eftirlitsskýrslu getur heilbrigðisfulltrúi eða fulltrúi Umhverfisstofnunnar gert athugasemdir og ábendingar um atriði sem betur mega fara en eru ekki brot á reglum eða starfsleyfi.
- Ef um frávik frá starfsleyfi kemur í ljós getur stofnunin gert kröfur á fyrirtækið um úrbætur.
Talin eru þau frávik sem heilbrigðis- og umhverfiseftirlit setur í flokk 2.
Fjöldi frávika í flokki 2 þar sem kröfur starfsleyfis eru ekki uppfylltar.
- Árið 2008 Voru tvö frávik hjá Alcoa Fjarðaáli. Annars vegar var skýrsla ekki send inn til Umhverfisstofnunar á tilsettum tíma og hins vegar mældist olíu og fituinnihald í fráveituvatni yfir mörkum starfsleyfis.
- Árið 2009 Eitt frávik hjá Landsvirkjun Fljótsdalstöð vegna brota á matvælareglugerð (Reglugerð nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti). Skýrsla Heilbrigðiseftirlits Austurlands
- Árið 2012 voru frávik hjá Alcoa Fjarðaáli vegna aukningar á losun flúors út í andrúmsloftið. Skýrsla Umhverfisstofnunar .
- Árið 2015. Frávik hjá Alcoa Fjarðaáli: Brot á starfsleyfi gr. 2.18 þar sem spilliefni voru geymd utan girðingar hjá Alcoa Fjarðaál. Skýrsla Umhverfisstofnunar.
- Árið 2018. Frávik hjá Alcoa Fjarðaáli: Brot á starfsleyfi gr. 2.12 - Geymsla olíublandaðs vökva á malarplani án fráveituhreinsunar. Skýrsla Umhverfisstofnunar .
- Árið 2019. Frávik frá gr. 2.4 í starfsleyfi kom fram við reglubundið eftirlit hjá Alcoa Fjarðaáli, ryklosun frá ryksafnara á hafnarsvæði var yfir mörkum. Skýrsla Umhverfisstofnunar.
- Árið 2020. Frávik hjá Alcoa Fjarðaáli: Alls voru tvö atvik sem tilkynnt voru til Umhverfisstofnunar vegna frávika frá starfsleyfiskröfum. Í júlí var tilkynnt um að olíumagn í fráveitu olíuskilju á faratækjaverkstæði væri yfir starfsleyfismörkum og í nóvember var olíuinnihald í fráveitu frá einni settjörninni yfir starfsleyfismarkmiði. Skýrsla Umhverfisstofnunar.
- Árið 2021. Frávik hjá Alcoa Fjarðaáli: Alls var ein formleg tilkynning tilkynnt til Umhverfisstofnunar vegna frávika frá starfsleyfiskröfum. Í október mældist olíumagn í fráveitu olíuskilju vestan skautsmiðju rétt yfir starfsleyfismörkum. Skýrsla Umhverfisstofnunar.
Uppfært: 29. maí 2024
Heimild: Landsvirkjun (2015-2024), Alcoa Fjarðaál (2014-2021).
Vöktunaráætlun og markmið
Hvað er mælt?
Fjöldi frávika frá starfsleyfum. (Áhrif framkvæmda: bein).
Áætlun um vöktun
Talin eru frávik sem koma fram í reglubundnu eftirliti Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Austurlands.
Markmið
Ekkert atvik á ári.
Mögulegar viðbragðsaðgerðir
Ef brot á lögum koma upp ber fyrirtækjum skylda að gera úrbætur. Fyrirtækin fylgja reglugerðum og lögum og geta þannig haft áhrif á hversu mörg brot koma upp.
Breytingar á vísi
Á ársfundi verkefnisins, 30. apríl 2019, var eftirfarandi breyting á vöktunaráætlun og mælingu samþykkt.
Texti fyrir breytingu | Texti eftir breytingu |
---|---|
Hvað er mælt:· Fjöldi atvika á ári þar sem lögum og reglum er ekki fylgt. |
Hvað er mælt:· Fjöldi frávika frá starfsleyfum |
Áætlun um vöktun· Fjarðaál og Landsvirkjun fylgjast með þessum mælikvarða. Hvert atvik verður skráð. |
Áætlun um vöktunTalin eru frávik sem koma fram í reglubundnu eftirliti Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Austurlands. |
Rökstuðningur breytinga: Fyrri mælikvarði er of vítt skilgreindur og óraunhæfur. Fylgst hefur verið með fjölda athugasemda sem hafa komið fram vegna starfsleyfis og er það í samræmi við forsendur fyrir vali á vísi þar sem vísað er til starfsleyfis.
Þessi vísir var upphaflega númer 34.1 og hét þá Íslenskum lögum og reglugerðum fylgt. Umfjöllun um hann má finna undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.
Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.
Ár | Nr. | Nafn vísis |
---|---|---|
2020 | 4.2.2 | Frávik frá starfsleyfum |
2007 | 1.6 | Íslenskum lögum og reglugerðum fylgt. |
Grunnástand
Grunnástand: Ekkert frávik.
Forsendur fyrir vali á vísi
Öll starfsleyfi vegna framkvæmda byggjast á því að fyrirtækin samþykki að fylgja öllum lögum og reglum sem eru í gildi á Íslandi hvort sem um er að ræða byggingartíma, rekstrartíma eða viðhald á mannvirkjum.
Ítarefni
Starfsleyfi fyrir álver Alcoa Fjarðaáls sf
Starfsleyfi fyrir álver Alcoa Fjarðaáls sf., Hrauni 1 í Reyðarfirði.Kt. 520303-4210.
Gefið út af Umhverfisstofnun í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.
Smellið á hnappinn til að sækja starfsleyfi og skýrslur þeim tengdar.