Framvinda
Rannsóknardeild Landsvirkjunar dýptarmældi lónið sumarið 2013 með nákvæmum fjölgeislamælia til að fá mat á rýmd og rýmdarbreytingum frá því að Hálslón varð til. Niðurstöður þeirra mælinga áætla heildarrýmd lónsins sem 2447 Gl og þá er miðlanleg rýmd um 2195 Gl. Mælingin staðfestir einnig fyrri niðurstöður um stærð lónsins, tæpa 62 km2.
Niðurstaðan er áhugaverð að því leyti að mat á rýmd lónsins eykst milli ára, eða um 128 Gl. Að megin hluta til stafar stækkun lónsins af því að sporður Brúarjökuls hopar enda er rýmdaraukningin aðallega í efsta hluta lónsins (>600 m.y.s.). Sporður Brúarjökuls er nú um 4,3 km ofar en hann var árið 2008. Því er Hálslón um 28 km að lengd og um 3 km að breidd.
a: http://en.wikipedia.org/wiki/Multibeam_echosounder
Uppfært: 26. apríl 2014
Heimild: Landsvirkjun (2014).
Vöktunaráætlun og markmið
Hvað er mælt?
Magn (m3) aurs sem safnast upp á 10 ára tímabili. (Áhrif framkvæmda: bein).
Vöktunaráætlun
Dýptarmælingar í lóni fara fram á 10-20 ára fresti.
Núverandi kort af lónskál er byggð á landmælingum og landlíkani sem ekki verður endurtekið. Fyrsta mæling eftir virkjun verður gerð með dýptarmælingartæki af einhverju tagi, þ.e. annarri aðferð, og verður því að líta á hana sem nýja grunnmælingu. Hæfilegt er talið að gera hana u.þ.b. 10 árum eftir að byrjað var að safna í lónið.
Fyrsta vöktunarmælingin fari fram 10 árum eftir grunnmælingu og nái þá 2 km norður fyrir ármót Kringilsár.
Önnur vöktunarmæling, 10 árum síðar nái yfir allan lónbotninn.
Aurkeilurnar þar sem meginkvíslarnar koma inn í lónið verða þannig mældar á 10 ára fresti, en lónið að öðru leyti á 20 ára fresti.
Markmið/Væntingar
Miðlunarrými mun ekki minnka meira en 20-25% á næstu hundrað árum.
Þær hugmyndir sem settar voru fram við mat á umhverfisáhrifum gerðu ráð fyrir að allur framburður jökulárinnar muni setjast til í Hálslóni. Reiknilíkan Vatnaskila (ítarefni) áætlar hvernig aurkeilur muni byggjast fram í Hálslón á næstu áratugum. Mælingar á undirlagi Brúarjökuls, sem Raunvísindastofnun Háskólans hefur framkvæmt, sýnir að undir jöklinum er djúpur dalur Ef hlýnun af völdum gróðurhúsáhrifa, sem spáð hefur verið, gengur eftir og Brúarjökull hopar eins og spár gera ráð fyrir, mun áðurnefndur dalur verða að djúpu jaðarlóni, líkt og Breiðamerkurlón. Þetta jaðarlón mun taka við bróðurparti framburðarins í stað Hálslóns (Sigurður M. Garðarsson o.fl. 2006).
Tvær sviðsmyndir:
Miðað við þessa þróun telja Sigurður o.fél. mestar líkur á að Hálslón verði ekki fullt fyrr en eftir 10.000 ár. Á Mynd 1 frá þeim félögum sýnir blái ferillinn framvindu fyllingar miðað við óbreytta stærð Brúarjökuls. Sá svarti hermir líklega framvindu miðað við að spár um hlýnun og hörfun jökulsins gangi eftir. Það mun litlu breyta næstu 100 árin, en þá mun lónrýmið hafa rýrnað um fimmtung, eins og væntingar hafa staðið til. Rauði punkturinn sýnir stöðu eftir 100 ár.
Mynd 1. Spá um framvindu fyllingar Hálslóns miðað við óbreytta stærð Brúarjökuls (blár ferill) og hlýnun og hörfun jökuls samkvæmt spám (svartur ferill)
Mögulegar viðbragðsaðgerðir
Einungis er um vöktun að ræða
Breytingar á vísi
Þessi vísir var upphaflega númer 19.1 . Þá hét hann Uppsöfnun aurs í Hálslóni og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.
Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.
Ár | Nr. | Nafn vísis |
---|---|---|
2020 | 2.2.3 | Uppsöfnun aurs í Hálslóni |
2007 | 2.5 | Uppsöfnun aurs í Hálslóni |
Grunnástand
Land í lónsstæði hefur verið kortlagt, bæði gróður og jarðfræði auk þess sem dýralíf og fornleifar hafa verið athugaðar. Sethjallar frá ísaldarlokum hafa einnig verið kannaðir auk annarra jarðfræðiminja.
Aurburður Jökulsár á Dal hefur verið mældur frá árinu 1964 þegar Orkustofnun hóf mælingar á svifaur í ánni. Mælingar hafa farið fram á skriðaur (botnskriði) um nokkurra ára skeið, þær síðustu 2001. Fyrir liggja líkanareikningar með spá um setmyndun og kornastærðardreifingu innan lónsstæðisins. Sjá skýrslu frá Verkfræðistofunni Vatnaskilum.
Forsendur fyrir vali á vísi
Uppsöfnun aurs í Hálslóni getur haft áhrif á líftíma virkjunar og er því þáttur sem þarf að fylgjast með þegar áhrif hennar á sjálfbæra þróun eru metin. Með byggingu Kárahnjúkavirkjunar varð Hálslón til, en í upphafi (1998) var flatarmál lónsins áætlað 57 km2 og heildarrýmd 2340 Gl, en þar af miðlanleg rýmd um 2100 Gl m.v. fullt lón.
Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fjöllum bera fram mestan aur allra íslenskra vatnsfalla eða á bilinu 6,5-7 milljónir tonna á ári að meðaltali. Þar af er um 90% svifaur og um 10% skriðaur (botnskrið). Megnið af þessum aurburði, um 5,5 –6,0 milljónir tonna á ári, mun setjast í lónið og fylla það á nokkur hundruð árum ef engar breytingar verða á jöklinum. Áður var framburður áætlaður 7-8 milljónir tonn. Endurskoðun á framburði er byggð á betri sýnatökuaðferðum (sjá ítarefni). Setmyndun verður mest efst í lóninu og eyrar munu strax byrja að myndast þar sem Jökulsá rennur inn í lónið. Eftir 25 ár gætu þessar eyrar náð um það bil 1,5 km út í lónið og um það bil 6 km eftir 100 ár.
Það efni sem árlega sest til í Hálslóni samsvarar að rúmmáli pýramída sem er um 250 metra á kant og 250 metra hár. Talið er að Keops píramídinn í Egyptalandi hafi upphaflega verið 146,5 m hár og um 230 m á kant. Keops píramídinn er sá stærsti sem faróinn Khufu byggði.
Uppfært: 26. apríl 2014
Heimild: Landsvirkjun (2014)
Upprunalegar forsendur fyrir vali á vísi
Uppsöfnun aurs í Hálslóni getur haft áhrif á líftíma virkjunar og er því þáttur sem þarf að fylgjast með þegar áhrif framkvæmda á sjálfbæra þróun eru metin. Með byggingu Kárahnjúkavirkjunar verður til um 57 km2 lón sem nefnt verður Hálslón. Lónið verður um 24 km langt og um 3 km að breidd. Heildarrými lónsins er um 2340 Gl, þar af er miðlunarrými um 2100 Gl. Jökulsá á Dal ber mestan aur allra íslenskra vatnsfalla eða á bilinu 7 – 8 milljónir tonna á ári, þar af um 90% svifaur og um 10% botnskrið. Megnið af þessum aurburði, um 6,5 – 7,0 milljónir tonna á ári, mun setjast í lónið og fyllast það á nokkur hundruð árum ef ekkert er að gert og engar breytingar
verða á jöklinum. Setmyndun verður mest efst í lóninu og eyrar munu strax byrja að myndast þar sem Jökulsá rennur inn í lónið. Eftir 25 ár gætu þessar eyrar náð um það bil 1,5 km út í lónið og um það bil 6 km eftir 100 ár.
Ítarefni
LV-2014/050 - Sniðmælingar Hálslóns sumarið 2013
Hægt er að skoða meira ítarefni sem snýr að vísinum með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan.