Fara í efni

Framvinda

Ekki hefur þótt ástæða til að uppfæra vöktunarkort Landsvirkjunar um frekari skerðingar víðernis. Stöðugt er unnið að reglum og skilgreiningum um hugtakið víðerni og þetta neðangreint er það nýjasta í samhengi með Landsskipulagsstefnu.

Í þeim hluta Landsskipulagsstefnu 2016-2025 sem fjallar um skipulag miðhálendisins segir:

Viðhaldið verður sérkennum og náttúrugæðum miðhálendisins með áherslu á verndun víðerna hálendisins, landslagsheilda, mikilvægra vistgerða og gróðurlenda og verðmætra menningarminja.

Í kafla 1.1.4 segir enn fremur:

Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun hafi forgöngu um að reglulega liggi fyrir uppfærð kort af umfangi og þróun víðerna á miðhálendinu. Í því felst að ákveða viðmið fyrir mat á umfangi víðerna út frá skipulagssjónarmiðum og að hafa kort sem uppfærð eru reglulega um umfang víðerna aðgengileg fyrir skipulagsvinnu sveitarfélaga og annarra aðila.

Nýtt kort, hið fyrsta eftir gangsetningu virkjunar, var gert með nýjustu upplýsingum um mannvirki, lón og vegi. Mörk ósnortinna víðerna voru uppfærð miðað við 5 km fjarlægð frá vegum, lónum og mannvirkjum. Stærsta breytingin er vegna stækkunar Hálslóns til suðurs vegna hörfunar Brúarjökuls. Varanleg aukning umferðar hefur orðið um Brúardalaleið til norðurs frá vesturenda Kárahnjúkastíflu.

Uppfært: 24. mars 2022
Heimild: Landsvirkjun (2022).

Vöktunaráætlun og markmið

Hvað er mælt

Skerðing víðerna í km2 miðað við skilgreiningu í náttúruverndarlögum. (Áhrif framkvæmda: óbein).

Vöktunaráætlun

Nýtt víðerniskort var búið til 2013.

Ný kort verða búin til ef þörf er á vegna frekari breytinga á svæðinu. Upplýsingum verður safnað eins oft og þörf er á.

Markmið

Flatarmál víðerna mun ekki skerðast eftir lok byggingartíma (á árinu 2007).

Mögulegar viðbragðsaðgerðir

Einungis er um vöktun að ræða.

Breytingar á vísi

Þessi vísir var upphaflega númer 31.1 . Þá hét hann Skerðing víðerna og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.

Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.

Tafla 1. Breytingar á númeri og nafni vísis.
Ár Nr. Nafn vísis
2020 2.2.5 Skerðing víðerna
2007 2.7 Skerðing víðerna

Grunnástand

Mynd 1. Ósnortin víðerni

Á meðfylgjandi korti (efri myndin) er sýnd niðurstaða starfshóps umhverfisráðuneytisins um ósnortin víðerni umhverfis Vatnajökul og á hálendinu norðan hans. Grænu svæðin tákna ósnortin víðerni. Norðan Vatnajökuls eru það tilteknar ferðaleiðir og skálar sem skerða víðernin á hálendinu og augljóslega er það matsatriði hvaða ferðaleiðir teljast skerða víðerni og hverjar ekki. Leiðirnar inn að Snæfellsskála og inn að Sigurðarskála í Kverkfjöllum teljast skerða víðerni og þar með er t.d. Snæfell og nánasta umhverfi þess ekki ósnortið víðerni. Vatnajökull og samfelld ósnortin víðerni umhverfis hann eru samkvæmt þessari mynd um 14.500 km2.

 

Mynd 2. Víðerni kort

Neðri myndin sýnir áætlaða skerðingu víðerna vegna Kárahnjúkavirkjunar. Sú skerðing er annars vegar vegna Hálslóns, um 460 km2, og hins vegar vegna Jökulsárveitu og mannvirkja á Múla og Hraunum, 275 km2. Alls er skerðing vegna virkjunarinnar um 735 km2. Umferð um Brúardalaleið á sumrin hefur aukist mikið eftir að framkvæmdir hófust og hringleið opnaðist milli Fljótsdal og Jökuldals yfir hálendið og yfir brú á Jökulsá á Dal við Kárahnjúka . Því hefur víðerni á þessu svæði verið skert um 90 km2 til viðbótar vegna vegabóta og aukinnar umferðar á Brúardalaleið.

Forsendur fyrir vali á vísi

Við mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar var fjallað um landslag og sjónræn áhrif. Þar er jafnframt fjallað um þá skerðingu sem mannvirki Kárahnjúkavirkjunar munu valda á víðernum hálendisins. Í umræðum um virkjunina ber skerðingu víðerna mjög oft á góma.

Skilgreining á því hvað séu ósnortin víðerni er ekki einföld, því í raun hefur búseta í landinu raskað stórum hluta hálendisins með einum eða öðrum hætti. Aðgengi að hálendinu er fyrst og fremst með vegum, brúm og slóðum fyrir vélknúin farartæki, sem skerða ósnortin víðerni og skálar fyrir ferðamenn og gangnamenn valda einnig slíkri skerðingu. Þá má einnig segja að víðerni séu ekki ósnortin ef orðið hafa verulegar breytingar á gróðurfari og uppblástur af völdum ofbeitar.

Í umfjöllun um skerðingu víðerna vegna Kárahnjúkavirkjunar var farin sú leið að miða við niðurstöður starfshóps á vegum umhverfisráðuneytisins sem skipaður var í kjölfar samþykktar Alþingis frá 12. maí 1997 um varðveislu ósnortinna víðerna. Niðurstaða starfshópsins var tekin upp í lögum um náttúruvernd frá árinu 1999 og þar er hugtakið „ósnortið víðerni“ skilgreint þannig:

Landsvæði sem er a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu, er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum, og þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum.

Eftir að Kárahnjúkavirkjun verður komin í rekstur munu frekari breytingar á skilgreindum víðernum á svæðinu væntanlega einkum tengjast ferðaleiðum og ferðamennsku, því breytingar eru ekki fyrirhugaðar á mannvirkjum virkjunarinnar.

Úr áfangaskýrslu um vísa og grunnástand frá apríl 2005

Ítarefni

LV-2014/121 - Vöktun á áfoki í Kringilsárrana

LV-2014/121 - Vöktun á áfoki í Kringilsárrana

2014
Að beiðni Landsvirkjunar var settur upp búnaður til að hægt væri að fylgjast með tíðni og, eftir föngum magni, áfoks frá lónstæði Hálslóns og inn á Kringilsárrana. Settar voru upp þrjár mælistöðvar sem byggja á Sensit kornateljurum ásamt hita- og vindmælum. Ríkjandi vindáttir og landslag ræður miklu um líkur á áfoki. Sumarið 2014 mældist lítið áfok á tveimur stöðvum en talsvert á þeirri þriðju. Þar mældist áfok sem nam allt að 1,2 t m-1 sem telst umtalsvert. Einungis þurfti vind sem nam 4 m s-1 sem til að áfok hæfist. Nauðsynlegt er að fylgjast með framvindu á þessum svæðum.

Kortlagning víðerna á miðhálendi Íslands: Tillögur að nýrri aðferðafræði