Fara í efni

Framvinda

Fjöldi og tegundasamsetning laxfiska í Lagarfljóti fyrir og eftir virkjun; byggt á fjölda veiddra fiska í staðlaðri tilraunaveiði.

Veiting gruggugra og kaldara vatns úr Jökulsár á Dal til Lagarfljóts, hefur valdið miklum breytingum á lífskilyrðum vatnalífvera í Lagarfljóti, þ.m.t. fiska.

Rannsóknir voru gerðar á fiskstofnum Lagarfljóts með stöðluðum netaröðum árin 1998, 2000, 2005 og 2006, áður en Kárahnjúkavirkjun tók til starfa. Þær gefa upplýsingar um grunnástand silungastofna í Lagarfljóti ofan Lagarfoss áður en rekstur Fljótsdalsvirkjunar hófst. Í rannsóknum veiddust bleikjur og urriðar, en nærri lætur að um þrír fjórðu allra veiddra fiska hafi verið bleikjur. Tilraunaveiðar með sama hætti hafa verið gerðar annað hvert ár frá 2010, en auk þess fóru fram rannsóknir á fiskstofnum árið 2011 samhliða öðrum rannsóknum á lífríki í vatni.

Afli í staðlaðar netaraðir (afli á sóknareiningu) hefur verið nokkuð breytilegur milli ára, en hefur verið minni eftir virkjun í samanburði við mælingar frá því fyrir virkjun. Þetta er sérstaklega áberandi hjá bleikju, en ekki eins áberandi hjá urriða. Einnig hefur fjöldi veiddra fiska í rannsóknaveiðum í Lagarfljóti verið áþekkur milli staða síðustu ár, sérstaklega fyrir bleikju, en áður en Kárahnjúkavirkjun tók til starfa var afli bleikju hærri í Vífilstaðaflóa samanborið við stöðvar í Lagarfljóti . Þetta gæti skýrst af því að nú séu skilyrði fyrir fisk orðin áþekkari út eftir Lagarfljóti en áður var, svo sem hvað varðar grugg og lífræna framleiðslu. Einnig hefur vaxtarhraði bleikju og urriða minnkað.

Silungurinn í Lagarfljóti og hliðarám þess virðist að mestu vera staðbundinn, þ.e. gangi ekki til sjávar í fæðuleit. Þær upplýsingar sem fengist hafa úr fiskiteljara í fiskistiganum í Lagarfossi benda til að langmestur hluti þeirra fiska sem um hann ganga sé urriði og þá líklega sjóbirtingur á leið úr sjó. Óljóst er hve mikið gengur upp stigann á hverju ári, en rannsóknir benda til að það skipti tugum frekar en hundruðum. Árin 2010 og 2011 voru göngufiskar teknir úr stiganum í Lagarfossi og þeir merktir með útvarpsmerkjum. Alls voru merktir 20 urriðar og 7 laxar og gekk ríflega helmingur urriðanna áfram upp í hliðarár Lagarfljóts en enginn laxanna gekk áfram upp vatnakerfið. Undanfarin ár hefur laxaseiðum verið sleppt í hliðarár Lagarfljóts.

Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fjölda veiddra fiska á vatnasvæði Lagarfljóts í gegnum tíðina. Samkvæmt upplýsingum frá heimamönnum hefur veiði víða verið stunduð á svæðinu. Í samantekt sem Veiðifélag Lagarfljóts lét gera um veiði á vatnasviðinu, var áætluð meðalveiði 5.277 silungar á ári, auk 377 laxa sem langflestir veiddust í netaveiði neðan Lagarfoss (Sigmar H. Ingason 2009).

Jökulsá á Dal (Jökla) var á árum áður eitt aurugasta vatnsfall landsins. Eftir að rekstur Kárahnjúkavirkjunar hófst (2007), hefur vatni úr Jökulsá verið veitt úr Hálslóni til Fljótsdalsstöðvar og þaðan út í Lagarfljót. Síðan þá rennur vatn frá Hálslóni, um yfirfall á Kárahnjúkastíflu, niður farveg Jöklu, aðeins þegar lónið er komið í yfirfallshæð síðsumars eða snemma hausts. Utan þess tíma er nær eingöngu dragavatn í farvegi Jöklu, sem á uppruna sinn í hliðarám og lækjum á vatnasviðinu neðan Kárahnjúkastíflu. Þegar gruggugt yfirfallsvatn kemur niður farveg Jöklu niður Jökuldal, eykst rennsli þar og vatnsborð hækkar.

Fyrir tilkomu Kárahnjúkavirkjunar var mjög lítið um fisk í Jöklu og þá helst í ósum hliðaránna. Á síðustu árum hefur umtalsverð veiðinýting byggst upp á vatnasvæði Jöklu, bæði á fiskstofnum sem fyrir voru í hliðarám sem og veiði sem komið hefur í kjölfar umtalsverðra sleppinga laxaseiða. Í Jöklu er nú að finna villt laxaseiði og til framtíðar er markmiðið að áin verði sjálfbær hvað varðar framleiðslu seiða, sem veiðinýting verði byggð á. Villt laxaseiði finnast nú víða í Jöklu og hefur vísitala þéttleika þeirra farið vaxandi. Laxveiði í Jöklu hefur vaxið mikið á síðustu árum og sumarið 2022 veiddust 764 laxar í stangveiði í ánni. Einnig veiðast þar árlega nokkrar bleikjur og urriðar.

Tafla 1: Fjöldi veiddra fiska í staðlaðri tilraunaveiði.
Egilsstaðir Hallormsstaður Vífilsstaðaflói
Ár Bleikja Urriði Bleikja Urriði Bleikja Urriði
1998 229 30 86 42    
2000         123 50
2005 95 44 46 37    
2006 119 50 61 17    
2010 15 2 16 11    
2011 54 39 24 36    
2012 69 29 15 27 38 15
2014 51 43 56 63 90 53
2016 71 36 59 35 81 48
2018 112 57 42 64 92 46
2020 137 43 56 51 92 37

Tilraunaveiðar með sama hætti og 2005/2006 hafa farið fram annað hvert ár síðan 2010. Enn fremur var veitt við ströndina samhliða rannsóknum á strandlífi sumarið 2011, en sú gagnasöfnun er ekki sambærileg nema hvað varðar ástand fiska. Sumarið 2010 var veiði mjög lítil eða um og innan við tíundi hluti þess sem veiddist árin 2005 og 2006 út við Egilsstaði, en inn við Hallormsstað um fjórðungur (LV-2011-044). Síðan þá hefur veiði aukist eitthvað en er samt undir meðaltali áranna áður en virkjun tók til starfa (LV-2013-084, LV-2015-119 og LV-2017-094).

Sá urriði sem veiðst hefur í þessum rannsóknum virðist vera staðbundinn, þ.e. dvelur alla sína ævi í fersku vatni og gengur ekki til sjávar. Þetta er þó til athugunar og er niðurstaðna að vænta úr rannsóknum sem gerðar voru árið 2016. Rannsóknir benda einnig til að uppistaðan í veiði í þveránum sé af staðbundnum stofni. Þær upplýsingar sem fengist hafa úr fiskiteljara í fiskistiganum benda til að langmestur hluti þess sem gengur sé urriði og þá líklega sjóbirtingur á leið úr sjó. Óljóst er hve mikið gengur upp stigann á hverju ári, en rannsóknir benda til að það skipti tugum frekar en hundruðum. Árið 2010 samdi Landsvirkjun við Veiðimálastofnun um að merkja fisk í stiganum og fylgjast með hvað um hann verður. Rannsóknum var fram haldið 2011 (sjá LV-2013-014). Alls voru 27 fiskar merktir, 20 urriðar og 7 laxar. Af þeim hafa nokkrir urriðar skilað sér í helstu þverár Lagarfljóts, en einnig hafa einhverjir gengið aftur niður fyrir Lagarfossvirkjun. Enn er því margt á huldu um göngur úr sjó, eða samgang milli svæða ofan og neðan Lagarfoss. Enginn af löxunum skiluðu sér upp í fljótið.

Skráning á veiði er ábótavant en Veiðifélag Lagarfljóts telur að árleg silungsveiði í fljótinu ofan Lagarfljóts hafi verið um 3.000 fiskar (byggt á könnun meðal veiðiréttareigenda).

Árin 2011 og 2012 var þeirri vöktun á strandlífi fljótsins, sem gerð var 2006 og 2007 fylgt eftir. Það helsta sem talið hefur verið að gæti haft áhrif á strandlíf er aukið grugg sem fylgir veitunni úr Jökulsá á Dal um Hálslón.


Tegundasamsetning og útbreiðsla fiska í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti og hliðarám þeirra (lax) (áhrif framkvæmda: óbein).
Mynd 1. Kort af vatnasvæði Jökulsár á Dal. Rafveiðistöðvar eru sýndar með Örvum (kort: Ingi Rúnar Jónsson, dregið eftir korti Landmælinga Íslands).

Mynd 1. Kort af vatnasvæði Jökulsár á Dal. Rafveiðistöðvar eru sýndar með Örvum (kort: Ingi Rúnar Jónsson, dregið eftir korti Landmælinga Íslands).

 

Mynd 2. Staðsetning rafveiðstöðva (rauðir punkta) í Kelduá, Hengifossá, Grímsá, Eyvindará, Rangá og Gilsá, auk netaveiðistöðva í Lagarfljóti (bláir punktar), árið 2020. Kort: Landmælingar Íslands.  

Mynd 3.Laxaveiði í net í Lagafljóti neðan Lagarfoss á árunum 1985-2018, auk meðalveiði tímabilsins

Tafla 2. Vísitala þéttleika seiða í rafveiði í ám: Lax
  Lax
Vatnsfall/ár 2005 2006 2010 2012 2014 2016 2018 2020 2022
Kelduá 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0  
Jökulsá í Fljótsdal 0,0 0,0 0,0            
Bessastaðaá           0,0 0,0 0,0  
Hengifossá 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0        
Rangá í Fellum 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0  
Gilsá í Eiðaþinghá 6,6 12,0 8,4 2,9 6,0 3,9 5,2 9,0  
Grímsá             0,0 0,0  
Eyvindará     2,7 0,3 0,0 0,0 0,0 0,0  
Fögruhlíðará 7,2 14,5 0,0 5,0          
Laxá í Jökulsárhlíð 8,2 16,2 15,2 139,1          
Hrafnkelsá 0,0 0,0 3,7 0,0          
Tafla 3. Vísitala þéttleika seiða í rafveiði í ám: Bleikja
  Bleikja
Vatnsfall/ár 2005 2006 2010 2012 2014 2016 2018 2020 2022
Kelduá 1,6 4,2 3,4 3,1 4,8 9,9 5,3 4,8  
Jökulsá í Fljótsdal 0,3 0,4 0,6            
Bessastaðaá           1,1 2,5 1,0  
Hengifossá 1,0 1,3 3,5 5,9 0,6        
Rangá í Fellum 0,0 0,0 0,0 0,3 0,2 0,5 0,5 0,0  
Gilsá í Eiðaþinghá 0,5 3,0 7,1 4,7 4,0 9,0 2,2 5,3  
Grímsá         1,0 0,6 0,6 0,3  
Eyvindará     2,7 0,3 0,2 0,0 0,0 0,0  
Fögruhlíðará 0,6 0,5 1,4 6,5          
Laxá í Jökulsárhlíð 3,0 12,5 1,0 0,0          
Hrafnkelsá 0,1 0,3 0,6 0,5          
Tafla 4. Vísitala þéttleika seiða í rafveiði í ám: Urriði
  Urriði
Vatnsfall/ár 2005 2006 2010 2012 2014 2016 2018 2020 2022
Kelduá 0,2 2,2 3,7 3,9 2,7 1,3 1,8 3,8  
Jökulsá í Fljótsdal 0,0 0,0 0,0 0,0          
Bessastaðaá           0,0 0,0 0,0  
Hengifossá 0,0 0,4 0,0 1,2 0,0        
Rangá í Fellum 8,3 13,5 10,6 9,8 12,0 14,6 14,0 4,0  
Gilsá í Eiðaþinghá 1,9 6,4 3,0 0,5 2,5 6,7 2,1 2,0  
Grímsá         5,9 2,4 16,6 2,7  
Eyvindará     3,5 7,4 6,7 1,6 2,6 5,6  
Fögruhlíðará 1,1 0,9 0,0 1,0          
Laxá í Jökulsárhlíð 1,9 0,0 7,4 0,7          
Hrafnkelsá 0,0 0,0 0,0 0,0          

Vísitala þéttleika seiða (fjöldi seiða á 100 m2) í rafveiði í ám á vatnasviði Lagarfljóts, Jökulsár á Dal, Fögruhlíðarár og Gilsár árin 2005, 2006, 2010, 2012, 2014 og 2016. Athugið að innan hverrar ár geta verið allt upp í þrjár rafveiðistöðvar, tölur endurspegla heildarflatarmál allra stöðva innan hverrar ár og heildarfjölda veiddra seiða.

Það verður að hafa í huga að fjöldi seiða á 1. og 2. ári eru í flestum tilfellum um og yfir 90% veiddra seiða. Fjöldi þeirra sem lifir til 3 og 4 ára aldurs segir meira um framleiðni viðkomandi vatnsfalls og þar með framlag þeirra til veiðistofnsins.

Engar meiriháttar breytingar hafa orðið í þveránum milli tímabila. Það truflar nokkuð allan samanburð að í sumar ár er sleppt seiðum, svo sem laxaseiðum í Hrafnkelsdalsá og Eyvindará.

Uppfært: 25. julí 2023
Heimild: Skýrslur um fiskirannsóknir á vatnasviði Lagarfljóts, Jökulár á Dal, Fögruhlíðará og Gilsá - sjá skýrslur í ítarefni.


Skráning veiðimálastofnunar á veiði í ám (fjöldi fiska) (áhrif framkvæmda: Óbein)
 
Sjálfbærni.is

Mynd 3. Fjöldi stangveiddra laxa á vatnasvæði Jökulsár á Dal.

 
Sjálfbærni.is

Mynd 4. Skráð netaveiði í Lagarfljóti hjá Veiðimálastofnun.

Uppfært: 25. julí 2023
Heimild: Skýrslur Guðna Guðbergssonar, Lax- og silungsveiðin, 2005-2017 (sjá undir ítarefni).

Vöktunaráætlun og markmið

Hvað er mælt?
  • Tegundasamsetning og ástand fiskjar í Lagarfljóti (bleikja og urriði) (áhrif framkvæmda: óbein).
  • Tegundasamsetning og útbreiðsla fiska í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti og hliðarám þeirra (lax) (áhrif framkvæmda: óbein).
  • Skráning Veiðimálastofnunar á veiði í ám (fjöldi fiska) (áhrif framkvæmda: óbein).
Áætlun um vöktun
  • Sýni voru tekin af silungastofnum í Lagarfljóti árin 2005 og 2006 fyrir virkjun og aftur 2010 og 2012 eftir virkjun. Vöktun verður fram haldið með reglulegum hætti eftir virkjun a.m.k. þar til talið er að áhrif virkjunar séu komin fram. (Uppf. 17.1.2014)
  • Fylgst verður með laxfiskum. Rafveiðar á seiðum verða notaðar til að gefa viðmiðunargildi yfir tegundasamsetningu, þéttleika og ástand seiða. Sýni voru tekin 2005 og 2006 fyrir virkjun og verða tekin reglulega eftir virkjun a.m.k. þar til talið er að áhrif virkjunar séu komin fram. Rafveiði var notuð á eftirfarandi stöðum:
  • Jökulsá á Fljótsdal
  • Kelduá
  • Rangá
  • Eyvindará (var bætt við 2010)
  • Jökulsá á Dal, 3 stöðvar (eftir að söfnum vatns í Hálslóni hefst)
  • Laxá í Jökulsárhlíð
  • Fögruhlíð
  • Hrafnkelsdalsá
  • Einnig veitt á tveimur stöðum í Gilsá/Selfjóti, sem eru utan áhrifasvæðis, til að fá samanburð.

(Uppf. 17.1.2014)

  • Veiðifélög skila inn upplýsingum til Hafrannsóknarstofnunar, Rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna (áður Veiðimálastofnun), um fjölda fiska sem eru veiddir í hverri á. Stofnunin sér um skráningar. Upplýsingum verður safnað árlega úr útgefnum skýrslum Hafrannsóknarstofnunar.
Markmið

Markmið í lið a og b eru að fiskistofnar haldist stöðugir í Lagarfljóti, Jökulsá á Dal og hliðarám þeirra. Ekki eru sett markmið í lið c þar sem slíkt á ekki við, heldur eingöngu vöktun og miðlun upplýsinga.

Mögulegar viðbragðsaðgerðir

Einungis er um vöktun að ræða.

Breytingar á vísi

Í þriðja áfanga sjálfbærniverkefnisins voru tveir af upprunalegum mælikvörðum teknir út og nýjir hannaðir, þar sem hinir upprunalegu mælikvarðar voru tillögur sem voru lagðar fram áður en samráði við sérfræðinga var lokið.


Þessi vísir var upphaflega númer 27.1 . Þá hét hann Vatnalíf í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.

Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.

Tafla 5. Breytingar á númeri og nafni vísis.
Ár Nr. Nafn vísis
2020 2.5.4 Fiskar í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti
2007 2.25 Vatnalíf í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti

Grunnástand

Óblíðir umhverfisþættir í Jökulsá í Fljótsdal og Jökulsá á Dal takmarka lífríki í þeim. Jökulsá á Dal er jafnframt ein af aurugustu jökulám landsins. Jökulsá í Fljótsdal er fiskgeng um 25 km frá Leginum en vatnavextir og lágur styrkur uppleystra efna dregur úr frjósemi í ánni. Svifaur veldur því að lífræn framleiðsla er aðeins í efstu lögum vatnsins. Jökuláhrif eru mest næst Jökulsá í Fljótsdal en minnka eftir því sem utar dregur í Lagarfljóti. Í Lagarfljóti er bæði bleikja og urriði. Netaveiði í Lagarfljóti undanfarin ár hefur verið mest um 1000 kg á ári. Í Lagarfljóti neðan Lagarfoss er stunduð netaveiði á laxi og skráð meðalveiði áranna 1985-1999 var 87 laxar.

Þekking á grunnástandi silungastofna í Lagarfljóti byggist á stöðluðum rannsóknum (tilraunaveiðum) í sinn hvorum enda fljótsins árin 1998, 2005 og 2006. Tilraunaveiðar norðar sumarið 2000, þ.e. í Vífilsstaðaflóa, gáfu hliðstæðar niðurstöður. Ekki er auðvelt á grundvelli þessara niðurstaðna að draga miklar ályktanir um sveiflur í stofninum, en í því sambandi er eðlillegt að taka tillit til breytileika sem gæti helgast af aðstæðum á rannsóknartíma, e.t.v. 20-30%.

Tafla 6. Grunnástand silungastofna í Lagafljóti 1998, 2005 og 2006.
  Egilsstaðir Hallormsstaðir
Ár Bleikja Urriði Bleikja Urriði
1998 228 29 92 37
2005 95 44 46 37
2006 119 50 61 17
Alls: 442
123 199 91
Meðaltal: 147 41 66 30
Hlutfall %: 78 22 69 31

Næringarefni eru einnig í takmörkuðu magni í Jökulsá á Dal. Ekki er þekkt hve langt áin er fiskgeng en jökulgrugg, sveiflur í rennsli og óhentug botngerð gera það að verkum að lífsskilyrði fiska eru verri en annars væri. Þetta leiðir m.a. til þess að veiði hefur lítið verið stunduð. Nokkuð góðar líkur eru á því að Kárahnjúkavirkjun muni leiða til þess að lífræn framleiðsla aukist og lífsskilyrði fyrir fiska verði betri en nú er. Með því að megin hluta ársins er næringarefnasnauðu jökulvatni veitt úr ánni, nýtur hún þess nú að næringarefnaríkara vatn af heiðunum er yfirgnæfandi. Ekki er þó ljóst að hve miklu leyti skilyrði muni skapast til hrygningar þar sem áin rennur á stórum köflum á klöpp og aurum sem henta illa til hrygningar.

Þverár Jöklu falla flestar í hana í giljum og fossagljúfrum skammt frá farvegi árinnar. Þær eru því flestar annað hvort stutt fiskgengar eða ófiskgengar með öllu. Í Jökulsárhlíð eru fjórar ár, þar af þrjár sem renna í Jöklusá á Dal. Þær eru Kaldá, Fossá og Laxá. Í Kelduá er stunduð stangveiði, aðallega á bleikju. Samkvæmt upplýsingum frá Veiðimálstofnun var meðalveiði í ánni á tímabilinu 1997-2001 samtals 138 bleikjur, 27 urriðar og einn lax.

Heimild: Veiðimálastofnun

Forsendur fyrir vali á vísi

Kárahnjúkavirkjun mun hafa í för með sér mikla vatnaflutninga. Ekki var þó talið sjálfgefið að þær breytingar hafi mikil neikvæð áhrif á ferskvatnsvistkerfi ánna vegna þess að grugg, kuldi og miklar sviptingar í rennsli hafa hingað til takmarkað lífríki þeirra. Vatnalífríki í Jöklusá á Dal og þverám hennar í Jökulsárhlíð, Lagarfljóti og Kelduá er því ekki mjög fjölbreytt og veiði úr ánum hefur verið tiltölulega lítil. Breytingar á rennsli og aurburði í ánum mun ráða mestu um hver áhrifin verða á vatnalífríki. Í Jökulsá á Dal er hugsanlegt að áhrifin verði að einhverju leyti jákvæð, þ.e.a.s. lífsskilyrði muni batna í ánni.

Úr áfangaskýrslu um vísa og grunnástand frá apríl 2005

Ítarefni

Lax- og silungsveiðin 2019. HV 2020-38

Lax- og silungsveiðin 2019. HV 2020-38

2020

Laxveiði á stöng árið 2019 var sú minnsta á síðustu 20 árum og sú sjöunda minnsta frá árinu 1974. Talsverður munur var á milli landshluta og samdráttur í veiði mestur á Vesturlandi en veiði í ám á Norður og Austurlandi var svipuð og var árið 2018. Minni laxagengd og laxveiði á Vesturlandi og Suðurlandi árið 2019 skýrist að miklu leyti af óhagstæðum umhverfis aðstæðum þ.e. lítilli úrkomu og hlýindum. Ár voru vatnslitlar sem gerðu fiskum erfitt fyrir í uppgöngu og veiðimönnum við veiðar. Stangveiðin sumarið 2019 var samkvæmt skráningu á laxi í ám á Íslandi alls 29.218 laxar.

Lax- og silungsveiði 2018. Höf. Guðmunda Þórðardóttir og Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Hafrannsóknastofnunar.

Lax- og silungsveiði 2017 . Höf. Guðmunda Þórðardóttir og Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Hafrannsóknastofnunnar.

Lax- og silungsveiðin 2016 . Höf. Guðmunda Þórðardóttir og Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Hafrannsóknastofnunar.

Lax- og silungsveiðin 2015 . Höf: Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Veiðimálastofnunar.

Lax- og silungsveiðin 2014 . Höf: Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Veiðimálastofnunar.

Lax- og silungsveiðin 2013 . Höf: Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Veiðimálastofnunar.

Lax- og silungsveiðin 2012 . Höf: Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Veiðimálastofnunar.

Lax- og silungsveiðin 2011 . Höf: Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Veiðimálastofnunar.

Lax- og silungsveiðin 2010 . Höf: Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Veiðimálastofnunar.

Lax- og silungsveiðin 2009 . Höf: Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Veiðimálastofnunar.

Lax- og silungsveiðin 2008. Höf: Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Veiðimálastofnunar.

Lax- og silungsveiðin 2007. Höf: Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Veiðmilálastofnunar.

Lax- og silungsveiðin 2006 . Höf: Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Veiðmilálastofnunar.

Lax- og silungsveiðin 2005 . Höf: Guðni Guðbergsson. Skýrsla á vef Veiðmilálastofnunar.