NÍ - 07012 - Kárahnjúkavirkjun – gróðurvöktun á Úthéraði
Nánari upplýsingar | |
---|---|
Titill | NÍ - 07012 - Kárahnjúkavirkjun – gróðurvöktun á Úthéraði |
Undirtitill | Áhrif vatnsborðsbreytinga í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti |
Lýsing | Greint er frá niðurstöðum rannsóknar Náttúrufræðistofnunar Íslands á gróðri, jarðvegi og grunnvatnsstöðu á Úthéraði í ágúst 2006. Rannsókn þessi er fyrsta skref í langtímavöktun á gróðri á þeim svæðum við Lagarfljót og Jökulsá á Dal sem líklegust eru til að breytast að gróðurfari með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. Með virkjuninni er m.a. reiknað með að miklar breytingar verði á vatnafari fljótanna á Úthéraði. Rennsli í Jökulsá á Dal mun minnka og áin hætta að flæða vítt um áreyrar sínar, en rennsli í Lagarfljóti aukast. Svæði næst Jökulsá munu þorna eitthvað en við Lagarfljót má reikna með að land blotni sums staðar upp. Landbrot mun einnig aukast við Lagarfljót en minnka við Jökulsá á Dal. Rannsóknin var gerð að ósk Landsvirkjunar og var megintilgangur hennar að lýsa núverandi gróðri og umhverfisaðstæðum á Úthéraði. Rannsökuð voru sjö vöktunarsvæði, fimm við Lagarfljót og tvö við Jökulsá á Dal. Á svæðunum voru lagðir út alls 34 reitir á snið þvert á landhalla út frá fljótunum. Í reitunum var gróður mældur og ýmsir umhverfisþættir kannaðir. Við úrvinnslu gagna var m.a. beitt hnitun og flokkun. Á vöktunarsvæðunum var að finna allt frá mjög blautu votlendi upp í þurrlendi og benda niðurstöðurnar til þess að jarðvegsraki hafi mikil áhrif á gróðurfar og umhverfisaðstæður. Þekja háplantna og mosa var mest í blautu landi en minnkaði eftir því sem dýpra var á grunnvatn. Fléttuþekja jókst eftir því sem land var þurrara. Allsterkt samband var á milli tegundasamsetningar annars vegar og kolefnis- og niturinnihalds jarðvegs, sýrustigs, gróðurhæðar og tegundaauðgi hins vegar. Sýrustig var að jafnaði lægst, gróðurhæð mest, kolefnis- og niturmagn í jarðvegi hæst og tegundaauðgi minnst þar sem blautast var. Í skýrslunni er fjallað um líklegar gróðurbreytingar á vöktunarsvæðunum af völdum virkjunarinnar. Þar sem land blotnar mun plöntutegundum fækka, þurr- og deiglendistegundir hopa en sérhæfðar votlendistegundir breiðast út. Á mýrlendissvæðum sem þorna geta rakakærar tegundir aftur á móti horfið en þurrlendistegundum fjölgað. Gerð er grein fyrir tillögum um framhald vöktunar. Lagt er til að gróður á vöktunarsvæðunum verði mældur á 5–10 ára fresti auk þess sem fylgst verði með gróðurbreytingum á þornandi áreyrum Jökulsár á Dal og mælingar hafnar á grunnvatnsstöðu í reitum. Einnig er lagt til að loftmyndir/SPOT-5 gervitunglamyndir verði teknar af Úthéraði á 10–20 ára fresti. |
Hlekkur | https://rafhladan.is/handle/10802/4411 |
Skráarviðhengi |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | Sigurður H. Magnússon |
Nafn | Bryndís Marteinsdóttir |
Nafn | Kristbjörn Egilsson |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Gróður |
Útgáfuár | 2007 |
Leitarorð | Úthérað, Jökulsá á Dal, Lagarfljót, gróður, háplöntur, Kárhnjúkavirkjun, vatnsborðsbreytingar, Hólmatunga, Húsey, Ekra, Hóll. |